Erlent | AFP | 24.10.2001 | 13:25

Danskur nýnasisti boðar framboð
Formaður danska nýnasistaflokksins, sem losnaði úr fangelsi í ágúst þar sem hann sat af sér dóm fyrir að aka á þátttakendur í mótmælagöngu gegn nýnasisma, tilkynnti í morgun að hann ætlaði að bjóða sig fram í næstu sveitarstjórnakosningum sem haldnar verða í lok næsta mánaðar.

Jonni Hansen, sem er þrítugur að aldri, ætlar að bjóða sig fram til bæjarstjórnar Hróarskeldu. Hansen bauð sig fram í bæjarstjórnarkosningunum í Grave, heimabæ sínum, fyrir fjórum árum en náði þá ekki kjöri. Hann segist nú reiða sig á áhrifamátt útvarpsstöðvarinnar Radio Oasen, sem danski nýnasistaflokkurinn rekur í Grave og er talin eina nýnasistaútvarpsstöðin í Evrópu. Á undanförnum fimm árum hefur þessi stöð öðlast nokkrar vinsældir og er talið að um 100 þúsund manns hlusti á hana að jafnaði. Þrátt fyrir andmæli margra hópa fékk stöðin starfsleyfi hjá dönskum stjórnvöldum í samræmi við ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar um málfrelsi.

Hansen var handtekinn á síðasta ári fyrir að aka inn í hóp fólks sem var að mótmæla fasisma utan við skrifstofur nýnasistaflokksins í Grave. Sex manns slösuðust. Hansen var í kjölfarið dæmdur í 18 mánaða fangelsi en var látinn laus í sumar vegna góðrar hegðunar.

Þetta var tekið af www.mbl.is og ætti engan að undra að danir séu að koma með svo róttæka einstaklinga meðað við ástandið hjá þeim.

Kv.vigni