Vinstrimenn og jafnaðarmenn eru hugtök sem hljóta að skilgreinast þannig að viðkomandi er þeirrar skoðunar að jafna þurfi bilið á milli ríkra og fátækra, hvort sem að þessir menn vilji nota ofbeldi og/eða áróður til að koma á miðstýringu á auðlindum eða einfaldlega stýra kapítalismanum í þann farveg að teknir eru fjármunir frá þeim sem ríkari eru og gefnir þeim fátækari. (Ég leyfi mér að gleyma stjórnleysingjum og öðrum smærri vinstrisinnuðum hópum viljandi til að einfalda málið). Þeim greinir á um aðferðina og umfangið en hugmyndin er samt sem áður sú sama.

Hægrimenn og frjálshyggjumenn eru aftur á móti á því að besta leiðin til að tryggja velsæld sem flestra sé með því að leyfa kapítaliska markaðnum að stjórna velsæld fólksins og stýra kapítalismanum sem minnst. Eins og með áðurnefnt dæmi þá greinir þá á um aðferðina og umfangið en takmarkið er samt sem áður að menn skuli aðeins fá velsæld ef unnið er fyrir henni á kapítaliskum markaði.

Það að taka peninga frá einhverjum og gefa öðrum er aðeins réttlætanlegt ef að fyrri aðilinn átti ekki rétt á þessum peningum, og það er einmitt raunin í kapítalístísku samfélagi, kapítalismi væri réttlætanlegur ef að allir byrja með sömu möguleika til að vegnast vel og ef að leikreglurnar væru sanngjarnar. En svo er augljóslega ekki. Menn fæðast inn í mismunandi heima með mismunandi möguleika og ofan á það bætist að kapítalisminn er byggður þannig upp að því meira sem maður á því meira græðir maður, og svo eru margfaldast áhrifin til að gera leikinn enn ósanngjarnari. Auðvitað er hugsanlegt að einhver sem hefur vegnast vel hefur ekkert hagnast á kostnað annara en það er eins og svo oft áður að undantekningin sannar regluna.

Ég er því satt að segja furðu lostinn þegar ég heyri hve margir segjast vera hægrimenn nú á dögum, en það veldur sennilega mikill áróður sem stjórnast af fjármagnseigendum sem eiga hagsmuna að gæta, en það er annað mál sem ég mun skrifa um við annað tækifæri.

Finnur Dellsén
7. ágúst 2001