Það er ekki hægt að segja að undafarið kjörtímabil Alþingismanna hafi verið viðburðalítið. Við erum þrívegis búin að skipta um forsætisráðherra, nokkrum sinnum um fjármálaráðherra, umhverfis- sjávarútvegis- iðnaðar og viðskiptaráðherra, félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Aðeins hafa þau Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sturla Böðvarsson, Guðni Ágústson og Björn Bjarnason setið allt kjörtímabilið í sama stól.


Maður spyr sig, hvers vegna þarf að skipta svona oft um ráðherra? Svarið er einfalt, aukin völd og virðing. Svo virðist vera að á hinu háa Alþingi sé barist um titla eins og á flestum öðrum vinnustöðum.

Sjáum fyrir okkur fyrirtæki, segjum fimm einstaklingar sem ætla að taka að sér að byggja hús, allir jafn hæfir, enginn sérmenntaður. Þeir skipta með sér verkum, einn tekur að sér að leggja rafmagnið, annar sér um pípulagnir, þriðji um múrun, fjóði um tréverk og sá seinasti hefur yfirumsjón með verkinu. Verklok eru áætluð eftir fjögur ár. En eftir ár, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, þarf verkstjórinn að hætta störfum og er smiðurinn settur í hans stað. Múrarinn finnst meira spennandi að smíða og skiptir um stöðu, eins gerir pípari og rafyrki. Verkið gengur en aftur, eftir þrjú ár þarf enn á ný að skipta um verkstjóra, smiðurinn tekur við af honum, múrarinn af smiðnum, og koll af kolli. Og nú spyr ég, verður verkið eins vel unnið og hægt hefði verið, hefðu sömu menn haldið sér í sinni stöðu?

Ráðherrar og þingmenn eru þjónar sem vinna fyrir okkur, þegna landsins. Viljum við hafa einstaklinga við stjórn, sem í stað þess að vinna sína vinnu vel, skipta um stöðu trekk í trekk vegna eigin hagsmuna, eða hagsmuna þess flokks sem þeir eru í. Nei takk. Íslenska þjóðin á ekki að sætta sig við þetta, æðstu ráðamenn eiga að vita betur og taka ábyrgð á því starfi sem þeir eru af þjóðinni kosnir í og vinna sína vinnu vel.