Seðlabankinn þráast við að lækka vexti og heldur fram að sú efnahagslægð sem hefur valdið því að vextir hafa verið lækkaðir af seðlabönkum flestra annara landa nái ekki ennþá til Íslands. Þeir segja að hér sé verðbólga of há og meðan að svo sé, þá sé ekki forsvaranlegt að lækka vexti.

Það er margt við þetta sjónarmið Seðlabankans að athuga, fyrir það fyrsta þá líða margir mánuðir þar til að áhrifa breytinga á vöxtum fer að gæta og við höfum ótal mörg merki nú þegar um að verulega sé farið að hægja á hjólum efnahagskerfisins. Það er of seint að bregðast við, þegar að hrun er orðið að veruleika.

Þá hefur gengisvísitala krónunnar verið að lækka, fyrst í stórum stökkum nú í vor og undanfarinn mánuð hefur gengið sigið um 3%. Þetta veldur því að allar skuldir í erlendri mynt hafi vaxið sem þessu nemur og því er það rétt að vöxtum hafi ekki einu sinni verið haldið í stað, heldur hafi þeir í raun verið hækkaðir. Þá má einnig horfa á það að á meðan vaxtastiginu hér er haldið óbreyttu en vextir lækkaðir í öðrum löndum, þá sé um hlutfallslega vaxtahækkun að ræða hérna.

Einnig gleymist það í umræðunni hér á landi þegar er verið að ræða um samband á milli vaxta og verðbólgu að við búum við það einstaka fyrirkomulag að langflest lán eru með verðtryggingu, sem veldur því að verðbólga skilar sér samstundis inn í greiðslubyrði af lánum, á meðan að í öðrum löndum veldur verðbólga því að greiðslubyrðin verður hlutfallslega léttari. Há verðbólga hér veldur því vaxtahækkun og því má segja að miðað við það verðbólgustig sem við höfum búið við að undanförnu að þar sé um hreina vaxtahækkun að ræða.

Það hlýtur að vera orðið löngu tímabært að Seðlabankinn fari að endurskoða sín sjónarmið, því með háttarlagi sínum er hann að bæta byrðum á fyrirtækin og einstaklingana í landinu sem þeir geta ekki borið til lengdar. Ef ekki verður gripið í taumana fljótlega óttast ég að það hafi skelfilegar afleiðingar fyrir efnahagslífið í landinu.