Tekið af www.baratta.blogdrive.com

Alþjóð er boðið í Partí þann 15. Maí við Nordica Hotel til þess að mótmæla þeirri stefnu sem ríkisstjórnin og frammámenn viðskiptalífsins hafa markað í iðnaðar og viðskiptamálum.

Hafið þið velt fyrir ykkur hvers vegna svo fáir mæta í íslensk mótmæli? Við höfum svarið við því. Það er vegna þess að þau eru svo leiðinleg og molluleg að þau eru betur fallin til þess að drepa niður baráttuandann fremur en hitt.

Einhverra hluta vegna virðist hafa skapast hefð fyrir því að íslenskir mótmælendur standi stirðir og þegi þunnu hljóði hvar sem þeir koma saman, og í okkar huga vekur það spurningar eins og: hver hlustar á þá sem þegja? Þessu viljum við breyta og höfum við því ákveðið að gera tilraun til þess þann 15. Maí. þegar The Economist heldur ráðstefnu sem kostuð er af ALCOA, FL Group, Landsbankanum og KOM (sjá nánar: http://www.ogmundur.is/news.asp?id=658&news_ID=2601&type=one )

Eins og sjá má í bæklingnum um ráðstefnuna sem birtist á heimasíðu Ögmundar Jónassonar byrjar ráðstefnan kl. 8 og þá ætlum við sem nú erum að undirbúa þetta partí að vera komin þar saman til að snæða morgunverð og undirbúa okkur fyrir langan og hávaðasaman dag. Mótmælin munu standa jafn lengi og ráðstefnan, frá 8 um morguninn til 7 um kvöldið. Ætlunin er að fá tónlistarmenn til að troða upp og vera með nokkra gjörninga og fleira.

Dagskrá verður aulýst þegar nær dregur.

Hér á eftir fylgja nokkur atriði sem við viljum benda fólki á að kynna sér:



Við styðjum og tökum jafnvel þátt í beinum aðgerðum. Beinar aðgerðir miða að því að hindra stofnanir, einstaklinga eða samtök í að framkvæma það sem maður er ósáttur við með öllum tiltækum ráðum.
Við erum andvíg ofbeldi og lítum ekki á það sem tiltækt ráð. Ofbeldi skilgreinum við sem skaðlega aðför að einstaklingi. Önnur úrræði styðjum við innilega.
Við lítum ekki á borgaralega óhlýðni sem skaðlega aðför að einstaklingi. Hún getur m.a. falist í því að mála á vinnuskúra, hlekkja sig við vinnuvélar, mótmæla á skrifstofum, hunsa fyrirmæli lögreglu eða öryggisgæslu, klippa iðnaðaráróður, æpa, bölva, steita hnefa eða með öðrum hætti að tefja, trufla og pirra þá sem framkvæma alvarlega glæpi gegn fólki og náttúru.


Það sem jafnan er gott að hafa með sér á mótmæli er:



· Skilti, borðar, leikmunir eða annað sjónrænt

· Flautur, ýlur, trommur, lúðrar…

· Myndavélar

· Klæði við hæfi

· Nesti, drykkur og baráttuandi



Það sem EKKI er gott að hafa meðferðis:



Áfengi og/eða önnur vímuefni
Hníf eða önnur vopn
Þras og leiðindi varðandi aðferðir okkar
Vonda skapið