Það er nú eins með Schengen-samstarfið og aðra hluti að við það eru bæði kostir og gallar. Gallinn er þó sá að kostir samstarfsins blikna í samanburði við gallana.

Fyrir það fyrsta er kostnaður íslenskra skattgreiðenda vegna þátttökunnar í Schengen gífurlegur eða um 3-4 milljarðar í upphafsgjald og hundruðir milljóna á hverju ári í rekstrarkostnað. Tolleftirlit helst að formi til en veikist verulega sem þýðir m.a. að fíkniefnasmygl, og annað smygl, verður auðveldara. Sem dæmi má nefna að danska tollgælsan á landamærum Þýskalands og Danmerkur hefur nánast ekki gert upptækt nein eiturlyf síðan Schengen tók gildi þar í landi.

Smygl á ólöglegum innflytjendum er mikið inn fyrir landamæri Schengen. Smygl þetta er stundað af skipulögðum glæpaflokkum og hafa margir þeirra snúið sér frá fíkniefnasmygli að því að smygla fólki þar sem það gefur allt eins vel af sér og er mun áhættuminna, bæði vegna þess að dómar við því eru mikið vægari auk þess sem það er erfitt að taka á þessum brotum þar sem bæði smyglararnir og “varningurinn” njóta vissrar samúðar. Talið er að árlega sleppi um 400 þúsund ólöglegir innflytjendur inn fyrir landamæri Schengen. Engin tölfræðileg ágiskun er hins vegar til um hve margir gera tilraun til að komast inn á Schengen-svæðið án árangurs. Gjarnan er samband milli þessarra ólöglegu mannflutninga og melludólga sem smygla stúlkum einkum frá Austur-Evrópulöndum og vestur yfir.

Ólöglegir innflytjendur sem komast inn á Schengen-svæðið varast að framvísa nokkrum skilríkjum til að sanna ríkisfang sitt og setja innflytjendayfirvöld í mikinn vanda. Þegar einu sinni er komið yfir landmæri Schengen er auðvelt að ferðast um skilríkjalaus á milli landa. Sakamenn og landhlauparar eru meðal þeirra sem leita hælis. Ef fólki er ekki snúið við á landamærum Schengen er ekki alltaf einfalt að vísa því úr landi, eða út fyrir Schengen-svæðið. Sé manni vísað úr landi verður að senda hann til þess lands sem hann kom frá, en þegar maður hefur hvorki vegabréf né stimpil landamærastöðvar er ekki bara hægt að kasta honum yfir hvaða landamæri sem er.

Við Íslendingar munum sjá um landamæraeftirlit fyrir aðrar aðildarþjóðir Schengen og þær fyrir okkur, þar með talið þjóðir í Austur-Evrópu þar sem efnahagurinn er bágur og landamæragæslan eftir því. Þau landamæri eru mjög misgripaheld svo ekki sé meira sagt. Á næstu árum munu síðan fleiri Austur-Evrópuþjóðir ganga í ESB, og þar með að öllum líkindum Schengen, sem síðan þýðir enn vafasamari landamæri í austri. Í því sambandi má m.a. vitna í umsögn lögreglustjórans í Reykjavík til allsherjarnefndar Alþingis um áhrif Schengen-aðildar:

„Með því verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, meðal annars leit að fíkniefnum. Eftirlit með fíkniefnanotkun og dreifingu fíkniefna er víða slakt innan svæðisins og sums staðar eru uppi allt önnur viðhorf til fikniefna og baráttunnar gegn þeim en hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum. Í sex af aðildarríkjum Schengen hafa t.d. verið felldar niður refsingar gegn því að hafa undir höndum umtalsvert magn fíkniefna „til eigin nota“. Reynslan sýnir að takmörkuð landamæravarsla hefur slæm áhrif t.d. í Svíþjóð og Danmörku, að mati hlutaðeigandi aðila. Ljóst er að stór hluti þeirra fíkniefna, sem flutt eru til landsins, koma frá Evrópu. Mest af því sem lögreglan leggur hald á, kemur með farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með takmörkuðu eftirliti þar og annars staðar minnka að öllu óbreyttu möguleikar tollgæslu til eftirlits með innflutningi fíkniefna.”

Oft er aðgangur að sameiginlegum gagnagrunni Schengen, yfir óæskilega aðila, nefndur sem kostur við samstarfið. Í því sambandi má nefna að Bretar og Írar eru ekki aðilar að Schengen en hafa samt aðgang að umræddum gagnagrunni. Einnig má nefna að mikil spurning er hverjir verði flokkaðir sem óæskilegir aðilar á Schengen-svæðið. Hugsanlegt gæti talist að menn með ákveðnar skoðanir t.d. yrðu flokkaðir sem slíkir.

Það má því segja að það eina sem Íslendingar hafa upp úr Schengen er að þurfa ekki að framvísa vegabréfunum sínum innan svæðisins, en þurfa eftir sem áður að framvísa þeim alls staðar utan þess. Það er því um að ræða ansi dýr þægindi fyrir þjóðarbúið. Að lokum má minna á að við Íslendingar þurfum ekki að vera aðilar að samstarfi eins og Schengen til að sjá um eftirlit með okkar landamærum - það getum við gert sjálf!

Með Íslandssinnaðri kveðju,

Hjörtu
Með kveðju,