Heimspekingurinn Hegel var mjög merkur maður. Hann kom með kenningu sem hljómar einhvern veginn þannig að ef við ímyndum okkur að einhver komi með hugmynd um það hvernig eigi að stjórna landi, við skulum kalla þessa hugmynd tesu. Á einhverjum tímapunkti kemur einhver með hugmynd sem er alger andstæða fyrri hugmyndarinnar, við skulum kalla þessa hugmynd antitesu. Mikil togstreita mun myndast á milli antitesunnar og tesunnar og á endanum munu þær renna saman í aðra hugmynd sem sameinar það besta úr báðum hugmyndum. Sú hugmynd yrði þá kölluð syntesa. Á endanum mun síðan verða til hugmynd sem yrði alger andstæða syntesunnar. Núna er syntesan orðin að tesunni og nýja hugmyndin orðin að antitesunni. Þær sameinast síðan og verða að syntesu og svona gengur þetta ferli fyrir sig. Þessi hugmyndafræði Hegels er mikil framfarastefna. Hann hélt því fram að svona hefði saga mannkynsins gengið fyrir sig. Öll þau stjórnarför sem höfðu einkennt sögu mannsins hefðu á endanum eignast sína antitesu og þar af leiðandi hefði orðið til syntesa og svo framvegis. Þannig myndu stjórnarförin alltaf verða betri og betri. Ég er samt ekki alveg viss um hvort að Hegel hefði haldið því fram að á endanum yrði til hið endanlega stjórnarfar sem væri fullkomið og það myndi ríkja upp frá því.

Þá kemur að þætti Marx í þessu öllu saman. Marx var vinstrisinnaður Hegelisti. Það kemur glögglega fram í kommúnistaávarpinu að Marx var hrifinn af kapítalisma sem rökréttu framhaldi af stjórnarfarinu sem var á undan. Kapítalismi myndi rífa mannkynið til nýrra hæða en málið var að Marx sá galla á þessu kerfi. Hann síðan dró þá ályktun að kommúnismi yrði rétta framhaldið af kapítalisma. Hann skiptir mannfólkinu upp í borgarastéttina, þeir sem eiga peningana, og öreigana, þeir sem vinna fyrir borgarastéttina og eiga varla neitt. Á endanum myndi auðurinn safnast á hendur færri og færri einstaklinga og þá myndu öreigarnir gera byltingu og steypa þessu kerfi af stóli og koma á kommúnisma sem væri þá rökrétt framhald af kapítalisma.

Margir hafa síðan haldið því fram að þessi spádómur Marx hafi ekki ræst. Stéttarkerfið er einfaldlega miklu flóknara en svo að það séu bara til borgarastéttir og öreigar. Það hafa orðið til millistéttir á vesturlöndum. Verkafólkið þar er svo sannarlega ekki neinir öreigar. Þetta telja frjálshyggjumenn samtímans vera sönnun fyrir því að kapítalismi sé í raun hið fullkomna og endanlega kerfi. Þessu er ég hinsvegar algerlega ósammála. Þannig er mál með vexti að það eru að mínu mati bara 2 stéttir í heiminum. Það er borgarastéttin sem er fólkið á vesturlöndum sem lifir hinu góða lífi og verður feitara og feitara. Svo eru það öreigarnir sem búa nánasta allstaðar annarstaðar en á vesturlöndum eins og t.d. í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Lenín sagði að nýlendustefna vesturlandanna hefðu haldið uppi verkamönnum vesturlanda og komið í veg fyrir það að þeir hefðu það slæmt og þannig komið í veg fyrir byltingu. Þetta er að mínu mati algerlega satt og gildir eins í dag eins og á tímum Lenín. Á meðan að við hámum í okkur hamborgara og keyrum um á bílum þá svelta milljónir úr hungri í Afríku og deyja úr eyðni. Hið kapítalíska kerfi sem er síðan byggt í kringum lyfjaiðnaðinn kemur síðan í veg fyrir að þau fái nokkra hjálp.

Einhver myndi síðan segja að ef að kapítalísku kerfi yrði komið á um allan heim og öllum tollum rutt úr vegi (samanber alþjóðavæðingu) þá myndu allir fá að njóta þeirra ávaxta sem hið fullkomna kapítalíska kerfi hefur upp á bjóða. Það er rangt. Þessi þróun myndi hinsvegar flýta fyrir byltingunni því að þá myndi auðurinn safnast í hendur fárra, vinna myndi flytjast úr vesturlöndum (eins og er að gerast) og þar af leiðandi myndum við hætta að arðræna hina verr settu í Afríku og víðar. Þá myndu vesturlandabúar hafa það vont og gera á endanum byltingu. Sumir gætu þá spurt af hverju hinir fátæku hafa ekki gert byltingu gegn vesturlöndum nú þegar. Eins og ég lít á það þá eru t.d. afríkubúar vanir að lifa við það ástand sem þeir lifa við núna. Þeir lifa við sjálfsþurftarbúskap og hafa alltaf gert. Ef fólk er líka að hafa áhyggjur af því að lifa af þá eru það ekki beint að hugsa um að gera byltingu. Svo ekki sé nú minnst á þá staðreynd að gráðugir kapítalistar vesturlanda hafa att íbúum þessara landa saman og barið niður alla mótspyrnu gegn þeim sjálfum (samanber utanríkisstefnu bandaríkjanna). Það væri líka hægt að líta á upprisu múhammeðstrúarmanna gegn öllu því sem vesturlönd standa fyrir sem einhverskonar byltingu en það er þá bylting á herfilegum forsendum. Það er líka hægt að segja að kapítalismi sé tesan og kommúnismi antitesan. Síðan er það kerfi sem t.d. er byggt upp á norðurlöndum, þ.e. markaðskerfi með öflugu velferðarkerfi, orðið að syntesunni sem sameinar kosti kapítalismans og kommúnismans. Þannig hefur það kannski virkað á vesturlöndum en það réttlætir ekki stöðu hinna fátæku í heiminum. Það getur bara ekki staðist að nokkur maður geti litið á það sem réttlæti. Fólk gæti þá sagt að svona sé þetta bara. Við á vesturlöndum lifum við þau kerfi sem við lifum við og fólkið í afríku hafi hvort eð er alltaf lifað eins og það gerir og engin sé í raun að tapa neinu. Að halda því fram væri ekkert minna en argasti rasismi.

Ég ætla samt að minnast á annan hluta í kenningum Marx. Hann vill meina að stjórnarfar muni breytast með breyttum framleiðsluháttum. Þannig hefur iðnbyltingin valdið breytingum á framleiðsluháttum og þar með orsakað kapítalisma. Þannig að það er spurning hvort að það þurfi ekki að bíða lengur eftir kommúnisma. Ég var í þjóðhagfræðitíma nýlega og þar kom kennarinn með ímyndað dæmi um að til yrði vél sem gæti fjöldaframleitt dauða hluti upp úr engu. Hann síðan talaði um hvaða áhrif það hefði á markaðskerfið. Hann talaði um að atvinnuleysi myndi aukast og svo framvegis en það sem ég hugsaði var bara að hið kapítalíska kerfi myndi hrynja og það væri vegna þessa að framleiðsluhættirnir hefðu breyst. Það væru ekki lengur forsendur fyrir hagfræðinni. Það er því spurning um hvort að þeir sem vildu meina að breytingar gerðust hægt en ekki í einhverjum stökkum höfðu rétt fyrir sér. Kannski þurfa framleiðsluhættirnir að gerbreytast til að hið kapítalíska kerfi verði smá saman úrelt.

Auðvitað eru mjög margar og flóknar hliðar á þessum málum sem endalaust er hægt að skrifa um en við látum þetta nægja í bili…
Will there ever be a boy born who can swim faster than a shark?