Nú eru Evrópusinnar víst búnir að komast að þeirri niðurstöðu að íslenska krónan kosti þjóðina eina 120 milljarða króna á ári. Er þetta enn ein tilraunin til að reyna að narra okkur til að snúast gegn myntinni okkar og sjá evruna í bláum ljóma. Erfitt hefur þó reynst að fá upp úr þeim Evrópusinnum hvernig í ósköpunum þeim tókst að reikna út þessa tölu sína. Útreikningar sem upplýsa gætu það liggja bara greinilega ekki á tæru. Skyldu þeir Evrópusinnar hafa týnt þeim? Eða er hér aðeins um lágkúrulegt áróðursbragð að ræða sem enginn fótur er fyrir í raunveruleikanum? Ég hallast a.m.k. að því. Í það minnsta kaupi ég ekki þessa tölu þeirra Evrópusinna meðan þeir geta ekki upplýst hvernig hún var fengin út.

En hvernig er það annars? Er allt falt fyrir fé? Hvað með íslensku tunguna? Á ekki bara að fórna henni á altari Mammons líka? Er hún ekki bara byrði á þjóðinni? Það hlýtur að kosta okkur slatta á ári að hafa okkar eigið sérstaka tungumál; þýðingar á bókum og sjónvarpsefni, textanir á kvikmyndum, þýðingar á alls kyns skjölum og neytendaumbúðum svo eitthvað sé nefnt. Á ekki bara að kasta íslenskunni fyrir róða líka? Er ekki óhagkvæmt fyrir þjóðarbúið að hafa hana? Hvar á eiginlega að draga mörkin? Hvað ef Evrópusinnar fá það í gegn að íslenska krónan verði afnumin, er þá ekki bara tungumálið næst á dagskrá hjá þeim? Er virkilega allt falt fyrir fé???

Og hvað ef menn komast svo að því einn daginn að það sé óhagstætt fyrir okkur að vera áfram sjálfstæð þjóð? Á þá bara að segja bless við sjálfstæðið sem tók svo langan tíma að endurheimta? Reyndar eru þeir Evrópusinnar nú þegar búinir að komast að þeirri niðurstöðu að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar megi bjóða upp á altari hins yfirþjóðlega valds í Brussel, eins og flestir vita.

Málið er einfaldlega það að það hefur kostnað í för með sér að vera sjálfstæður og stjórna sínum málum sjálfur. Auðvitað er best að geta bara verið heima hjá pabba og mömmu alla ævi og aldrei axla ábyrgð eigin mála. En það að fara úr hreiðrinu og taka eigin mál í sínar hendur þýðir einfaldlega útgjöld og ábyrgð, en það þýðir líkar frelsi, framfarir og vald yfir eigin málum.

Látum ekki narra okkur til liðs við þá aðila sem vilja grafa undan tilveru okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. Tökum höndum saman og styrkjum stoðir sjálfstæðs Íslands og berjumst gegn þeim öflum sem vilja má út það sem gerir okkur að íslenskri þjóð!

Kveðja,

Hjörtur

(www.isbjorninn.cjb.net)
Með kveðju,