Það er furðulegt mjög að heyra Evrópusinna halda því stöðugt fram að íslenska þjóðin muni alls ekki glata fullveldi sínu ef til aðildar hennar að Evrópusambandinu kemur. Byggja þeir þessa fullyrðingu sína víst á því að með aðild að sambandinu munum við hafa svo mikil áhrif á allan þann mikla reglugerðahafsjó sem við munum fá yfir okkur að við getum engan veginn talist ófullvalda. Hins vegar séum við það frekar í dag þar sem við fáum hluta af reglugerðafargani ESB yfir okkur í gegn um samninginn um EES án þess að hafa áhrif á mótun þeirra.

Skyldu þeir Evrópusinnar hafa leitt hugann að því að vægi Íslendinga á Evrópuþinginu mun verða nánast ekkert ef af aðild Íslands verður? Við munum að öllum líkindum fá í hæsta máta þrjá fulltrúa á þingið af rúmlega 450 og er þar um að ræða mikla bjartsýnisspá. Það þýðir einfaldlega að hin miklu áhrif Íslendinga á mótun reglugerða ESB, sem þeir Evrópusinnar hampa svo mjög, mun verða meira en sexfalt minni en áhrif þingmanna Frjálslynda flokksins eru á lagasetningar Alþingis í dag. Með öðrum orðum nákvæmlega engin!

Ákvarðanir þær sem teknar verða á Evrópuþinginu verða ekki miðaðar út frá hagsmunum Íslands og íslensku þjóðarinnar heldur munu þær miðast fyrst og fremst og jafnvel engöngu að því að tryggja hag stóru þjóðanna innan ESB sem hafa þar langmest vægi; Breta, Frakka og ekki síst Þjóðverja. Ísland mun alltaf verða með langminnstu þjóðum sambandsins ef ekki sú minnsta. Það þýðir einfaldlega að tillit stóru þjóðanna til okkar hagsmuna mun verða eftir því. Hagmunum íslensku þjóðarinnar mun því ljóslega verða margfalt betur borgið utan ESB en nokkurn tímann innan þess.

Fyrir rúmum tíu árum síðan var það mikið baráttumál Evrópusinna að Íslendingar lögtækju samninginn um EES og var þá þvertekið fyrir það að lögtaka hans þýddi fullveldisafsal þjóðarinnar. Nú er annað hljóð í strokknum. Nú eru það orðin aðalrök Evrópusinna að við séum svo ófullvalda vegna EES-samningsins að nú sé ekkert annað hægt að gera en ganga enn lengra inn í gildruna og sækja um aðild að ESB. Hversu tvöfaldir geta menn eiginlega verið?

Það sem gerir umræðuna um Evrópumálin síðan enn alvarlegri er sú staðreynd að þó það yrði tæknilega séð möguleiki fyrir okkur að segja okkur úr ESB þá yrði það engu síður nær útilokað þegar við værum einu sinni komin þar inn. Ef við gerðumst aðilar að sambandinu yrði það fyrst að vera samþykkt hér heima í þjóðaratkvæðagreiðslu eða á Alþingi og síðan fá samþykki á Evrópuþinginu. Ef við síðan ákvæðum að segja okkur úr sambandinu yrði það að fara sömu leið. Samþykkja yrði ráðahaginn hér heima og síðan á Evrópuþinginu. Hvers vegna í ósköpunum ætti Evrópuþingið að sleppa af okkur hendinni?

Að öllum líkindum mun staða Íslands lagalega séð verða sú sama innan ESB og hún var innan danska konungsríkisins frá 1904 og þar til við fengum fullveldið 1918. Við verðum einfaldlega gleypt! Við verðum að hjáríki.

Eru þetta hugmyndir Evrópusinna um óskert fullveldi íslensku þjóðarinnar innan ESB?

Kveðja,

Hjörtu
Með kveðju,