Heil og sæl,

Það er slæmt til þess að hugsa þegar aðilar, sem telja sig vera að berjast fyrir mannréttindum ákveðinna hópa manna, ganga svo langt í þeirri mannréttindagæslu sinni að þeir, annað hvort í hugsunarleysi eða með vilja, traðka á mannréttindum annarra. Slík mannréttindagæsla getur varla talist mjög sannfærandi.

Hún er ekki merkileg umræðan, um hvaða mál sem annars er, ef aðeins annar aðilinn fær tækifæri til að tjá sig um málið en sjónarmið hins eru með öllu þögguð niður. Í því tilfelli er ekki um neina eðlilega umræðu að ræða heldur einhvers konar einstefnuumræðu.

Ef unnt á að vera að ræða mál á málefnalegum grundvelli er nauðsynlegt að allir aðilar sem að því koma geti tjáð sínar skoðanir. Um það snýst tjáningarfrelsið og lýðræðið! Tjáningarfrelsið er ekki bundið við einhver fyrirfram ákveðin sjónarmið eða hópa. Tjáningarfrelsið er fyrir öll sjónarmið svo framarlega sem þau stangist ekki á við lög. Og stangist einhver ákveðin sjónarmið á við lög er það dómstóla að skera úr um það og annarra ekki.

Ef einhverjum aðila umræðunnar telur að sér vegið með ómaklegum hætti er það versta sem hann getur gert að svara í sömu mynt. Það sýnir einungis að hann er í engu skárri en hinn aðilinn. Rétta leiðin hlýtur að vera að halda sig ævinlega á málefnalegum nótum, vega og meta rök hins aðilans ef einhver eru, og benda honum síðan góðfúslega á það sem hann fer hugsanlega rangt með – rökstuddu! Eingöngu með þeim hætti gerir viðkomandi það sem í hans valdi stendur til þess að umræðan haldist á málefnalegum grunni.

Það er hlýtur öllum að vera fyrir bestu að svo sé; nema auðvitað þeim sem hafa slæman málstað. Slíkir aðilar koma víst ætíð til með að vilja einstefnuumræður þar sem einungis þeim er leyft að tjá viðhorf sín og öðrum ekki. Slíkt samlagast þó engan veginn leikreglum lýðræðisins og þeir sem slík meðöl brúka hljóta að vera skilgreindir sem niðurrifsmenn og óvinir lýðræðisins. Ég á ekki von á öðru en að þetta séu flestir tilbúnir að samþykkja; nema auðvitað einstefnuumræðu-sinnar.

Með góðri kveðju,

Hjörtu
Með kveðju,