Spennan vex fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem ríkisstjórn Ariels Sharons býr sig undir átök og mótmæli vegna fyrirhugaðs brotthvarfs Ísraelsmanna frá Gasaströndinni.

Ísraelsk stjórnvöld hafa af því áhyggjur að um helmingur landtökufólks á svæðum Palestínumanna á Gasaströndinni muni þrjóskast við og neita að yfirgefa heimili sín þegar brotthvarf Ísraelsmanna þaðan hefst í ágúst. Gangi það eftir félli það hersveitum í skaut að þvinga fólkið í burtu og koma því fyrir annars staðar. Sumar fjölskyldurnar eru hins vegar þegar farnar og nokkrar fengu í dag lykla að nýju bráðabirgðahúsnæði. Fólkið virðist ekki sérlega ánægt með breytinguna. Ein fimm manna fjölskylda sagðist t.d. aðeins fá 60 fermetra íbúð.

Þjóðernissinnar eru stjórnvöldum æfareiðir vegna þessa og hóta öllu illu, meðal annars öflugum mótmælum í þessari viku. Ríkisstjórn Ariels Sharons hittist í dag til að ræða hvernig taka ætti á vandræðaseggjum. Ehud Olmert, aðstoðarforsætisráðhera Ísraels, sagði að loknum fundinum að ef þjóðernissinarnir haldi að við þessar aðstæður geti þetta endað miklum óróa, á svæði sem sé mjög viðkvæmt, þar sem sprengjur falli á degi hverjum og mikið mannfall geti orðið og alger ringulreið ríkt sem geti ógnað framkvæmd brottflutningsins, þá sé það þeirra ákvörðun. Það verði að virða og ríkisstjórnin eigi ekki að skipta sér af þessu.