Sælt veri fólkið,

Það er mjög sérstakt að fylgjast með því hvernig ýmis hugtök eru notuð og misnotuð. Það virðist nefnilega vera að færast í tísku að nota ýmis hugtök með einkar frjálslegum hætti og um leið mjög óupplýsandi. Þannig er að verða svo að ekki er nóg að heyra nefnt eitthvað hugtak til að vita strax við hvað er átt heldur verður maður að kynna sér hvað notandi hugtaksins meinar með því.

Eitt svona hugtak er hugtakið “þjóðernissinni”. Það virðist nefnilega vera til bæði “góðir” þjóðernissinnar og “vondir” þjóðernissinnar. Þessir tveir aðilar hafa þannig greinilega ekki sömu hugmyndafræði þrátt fyrir að skv. stjórnmálafræðinni sé aðeins til ein hugmyndafræði fyrir þjóðernishyggjuna. Þannig virðast “góðir” þjóðernissinnar vera þeir sem berjast fyrir sjálfstæði þjóðum sínum til handa, en þegar þessir sömu aðilar vilja standa vörð um hið fengna sjálfstæði eru þeir yfirleitt orðnir “vondir” þjóðernissinnar. Þannig má t.a.m. nefna Mohondas Gandhi sem dæmi um “góðan” þjóðernissinna.

Það bætir síðan ekki málin að nasistar eftir seinni heimstyrjöld hafa haft leiðinda tilhneigingu til að kalla sig þjóðernissinna í því skyni að reyna að milda afstöðu fólks til þeirra enda hugtakið “nasisti” ekki beint jákvætt vörumerki. Þetta hefur þó eðlilega haft þau áhrif að fólk hefur ekki fengið jákvæða afstöðu til nasista og rasista, enda varla hægt, heldur hefur hugtakið “þjóðernissinni” fengið mjög slæmt orð á sig. Nærtækasta dæmið um þessa slæmu þróun mála er auðvitað svokallað Félag íslenskra “þjóðernissinna” sem flestum hlýtur að vera ljóst að geta ekki talist annað en eitthvert afbrigði af nasistum.

Með það í huga er einkar athyglisvert að eitt af stefnumálum þessa félagsskapar er að vega þjóðernishyggjuna aftur til vegs og virðingar. Þeir gætu byrjað á því að hætta að saurga hana með því að kenna sig óverðskuldað við hana!

Kveðja,

Ritte
Með kveðju,