Til hamingju konur, hrópaði dagskrárgerðarkonan á Talstöðinni daginn eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kosin formaður Samfylkingarinnar…. Til hamingju konur? Var verið að velja formann flokksins eða konu?
Málflutningur femínista undanfarin ár er löngu orðinn svo leiðinlegur og ósanngjarn, að jafnvel fjölmiðlamálið í fyrra verður skemmtilegt í samanburði við það. En um hvað snýst málatilbúnaður femínista?
Skúringakonan í ráðhúsinu hoppar hæð sína af gleði þegar kynsystir hennar verður borgarstjóri eða fær há stöðu innan kerfisins. Af hverju? Hækka laun hennar? Á hún von á milljóna bótum ef henni verður skyndilega vikið úr starfi eins og háttsettar kynsystur hennar?
Nei aldeilis ekki. Jafnrétti kynjanna er einkaeign nokkurra vel menntaðra kvenna sem telja veg sinn til valda og virðinga árangursríkari vegna kynferðis síns en hæfileika. Hvers á sá karl að gjalda, sem verður að lúta í lægra haldi fyrir konu í atvinnuleit vegna kynferðis? Hversu hátt ber sú kona höfuðið, sem veit í hjarta sínu, að menntunin ein og hæfileikarnir báru hana ekki að markinu þegar upp er staðið, heldur kynferðið?
Ari Edwald, framkvæmdastjóri samtaka iðnaðarins sagði um daginn í framhaldi af uppákomunni á Bifröst, að hann teldi launamismun kynjanna vera konum sjálfum að kenna, þær einfaldlega verðleggðu sig lægra er karlmenn gera. Þarna held ég að hundurinn sé grafinn. Ég hef enga trú á því, að forsvarsmenn fyrirtækja velti launamálum mikið fyrir sér, þegar tveir jafnhæfir umsækjendur af hvoru kyni sækja um störf hjá þeim. Hæfileikinn skiptir öllu máli.
Oft er því líka þannig farið, að fyrirtækjum þykir fólk passa misvel inn í hóp stjórnenda. Það hlýtur því að vera réttur þeirra að velja í samræmi við það. Þetta á jafnt um konur og karla.
Oft er málflutningi femínista þannig farið, að ef hann væri frá körlum kominn, þá færi þjóðfélagið einfaldlega á annan endann. Sorglegt en satt. Ég sakna þess sárlega að karlkyns stjórnmálamenn þora ekki að segja hug sinn af ótta við það að konur hætti að kjósa þá ef þeir láta sannfæringuna ráða.
Ég byrjaði þessa grein á því að minnast á kosningasigur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannsslagnum í Samfylkingunni. Það er enginn vafi á því, að sigur Ingibjargar varð eingöngu þetta glæsilegur vegna þess að hún er kona. Hrellir það ekkert sálartetur Ingibjargar Sólrúnar að vita til þess, að hún var ekki kosin formaður Samfylkingarinnar vegna hæfileika og mannkosta sinna, heldur fyrst og fremst vegna þess að hún er kona.
Ég vildi óska þess, að menn segðu hér staðar numið. Það er nóg komið. Leggjum niður jafnréttisráð, setjum lög sem endanlega tryggja rétt beggja kynja, og í guðanna bænum fréttamenn, hlífið okkur við endalausum fréttum af því hvað við karlmenn erum vondir við konurnar okkar.