Þegar ég heyri á förnum vegi einhvern dæma Kristni út frá augljósri fáfræði, þá leiðrétti ég viðkomandi og ver Kristna. Þó er ég sjálfur einn slíkur, sem hakkar í sig Kristna fræði ítrekað, en munurinn á mér og þeim sem ég gagnrýni, er að ég veit um hvað ég er að tala.

Óþolandi klisja er t.d. “Biblían er ekkert nema ógeðslega vinsæl skáldsaga”.

Mörgum finnst raunverulega vera vit í þessu, en ekkert vit er í þessu. Biblían er samansafn af bókum frá hinum ýmsu tímabilum eftir hina ýmsu menn, frá ýmsum menningarheimum og frá ýmsum viðhorfum. Hún er hvorki betri né verri en aðrar fornar heimildir um þankagang og hugmyndir manna fyrr á tíðum. Skáldsaga er eitthvað sem er markvisst og meðvitað uppspuni. Biblían er samansafn af fornritum, ekki skáldsaga.

Ég get sagt hið sama um Kommúnisma. Margir segja “Falleg hugsjón en hún gengur því miður ekki upp”. Flestum finnst þeir vera voðalega fróðir um Kommúnisma fyrir að hafa heyrt þessa óþolandi klisju, en það er einmitt um þessa klisju sem mig langar til þess að fjalla.

Engin stjórnmálahugmynd er þannig gerð að hún “gangi ekki upp”. Ekki Kommúnismi, ekki Kapítalismi, ekki Kaþólismi, ekki neitt. Eina spurningin er hvernig maður ætlar að halda fólkinu til friðs, þannig að það geri eins og því. M.ö.o., stjórnarfar snýst um völd og ekkert annað.

Það sem gleymist við fall Sovétríkjanna er hið margra áratuga efnahagsstríð sem þau voru í við Bandaríkjamenn. Það vildi svo til að Bandaríkjamenn unnu. Það eitt og sér segir nákvæmlega ekki neitt um Kommúnismann, og enn síður risaveldi á borð við Kína eða óvinsæl smálönd eins og Kúba. Vissulega eru það ágætis vísbendingar um það hvað viðskiptahöft, einræði og þjóðarkúgun geta leitt af sér, en þá erum við ekki lengur að tala um Kommúnisma.

Það eina sem þarf til að láta nokkuð stjórnkerfi “ganga upp”, er nógu djöfulli mikið af vopnum, og það eina sem stoppar mann, eru borgaraleg réttindi.

Á þessum tíma þykjast Bandaríkjamenn geta sett samasemmerki á milli öryggis og borgaralegum réttindum. Ef það er eitthvað sem stangast á við öryggi, eru það einmitt borgaraleg réttindi eins og málfrelsi, rétturinn til lögmanns, rétturinn til að neyta þess sem manni sýnist, rétturinn til að kjósa. Þá láta þeir eins og 11. september hafi átt sér stað vegna þess að það hafi verið of mikið af öllu þessu, og réttlæta þannig eina vopnið sem lýðurinn hefur, sem er frelsið sjálft.

Nei, krakkar mínir. Sovétríkin féllu ekki vegna Kommúnismans. Bandaríkin unnu ekki vegna borgaralegu réttindanna þar. Það kemur mörgum á óvart að það var raunverulega bannað að tala gegn stjórninni í langan tíma í Bandaríkjunum, og CIA/FBI hafa enga skárri sögu af óréttlættum persónunjósnum gegn eigin borgurum heldur en KGB, Stasi eða reyndar nokkur önnur leyniþjónusta ef út í það er farið. Það er ekkert alheimsafl sem lætur bara annaðhvort kerfið virka. Það eru vopn, sem láta annaðhvort kerfið virka.

Því segi ég; til andskotann með Kommúnismann. Hann er ekki góð hugmynd sem gengur ekki upp, heldur einmitt hræðileg… gjörsamlega skelfileg hugmynd… og hann væri ekki svo ógnvekjandi ef hann einfaldlega gengi ekki upp.

Ég vil nefna þetta vegna þess að eftir að þessi klisja komst í tísku hjá þeim sem vita ekkert um Kommúnisma nema þennan frasa, þarf ekki nema góða hugmynd til að hún sé sjálfkrafa dæmd óraunhæf. Hugmynd sem “gengur ekki upp”. Þá vil ég nefna sérstaklega hugmyndir um actual málfrelsi (sem er ekki tryggt á Íslandi að neinu leyti, lesið 73. grein stjórnarskrárinnar), sem viðmælendum mínum þykir að öllu jöfnu mjög óraunhæfar hugmyndir…

…kannski bara því þær eru góðar.