Framsóknarmenn keppast nú um að skilgreina fyrir sjálfum sér og öðrum hvernig á því standi, að þeir séu um það bil að fara að feta í fótspor risaeðlanna, þ.e. að deyja út.
Skemmtilegast þótti mér að heyra útskýringu Dagnýjar Jónsdóttur, sem taldi Kristinn H Gunnarsson sleggju vera rót alls ills í flokknum hennar. Kristinn þessi hefur orðið uppvís að því að hafa sjálfstæðar skoðanir á hlutunum, svona eins og ætlast er til í eiðstaf þingmanna sem þeir gangast undir þegar þeir hafa verið kosnir á þing.
Hvernig væri nú að hætta að ljúga að sjálfum sér og öðrum?
Hvernig á fólk að treysta flokki sem er leiddur af formanni sem er örlítið yngri en risaeðlurnar sem ég minntist á hér í upphafi. Manns, sem löngu er kominn úr sambandi við fólkið í landinu og situr í sínum fílabeinsturni, umvafinn jáfólkinu sínu, sem leynir hann því hvað er að gerast fyrir utan. Formanni sem situr nú undir þeim ásökunum að hafa haft óeðlileg tengsl við áhrifahópa við sölu Búnaðarbankans, og þorir ekki að svara spurningum alsherjarnefndar um málið.
Hvernig á fólk að treysta manni eins og Magnúsi Stefánssyni, fyrrum söngvara Upplyftingar og formanns fjárlaganefndar Alþingis, sem ver formann sinn með kjafti og klóm, svo hann þurfi ekki að svara óþægilegum spurningum um tengsl sín við fyrirtæki í eigu vina hans, sem fengu bankann á silfurfati.
Ef Halldór Ásgrímsson hefur ekkert að fela, ætti hann að sýna þjóðinni þá kurteisi, að setjast niður fyrir framan fulltrúa fjárlaganefndar og svara spurningum þeirra, og það ekki í lokuðu herbergi, heldur í beinni sjónvarpsútsendingu, því þetta voru ekki hans prívateignir sem voru seldar, heldur eign almennings sem ég tilheyri.
Halldór Ásgrímsson.
Formaður fjárlaganefndar og söngvarinn knái úr Upplyftingu söng einu sinni inn á hljómplötu sem hét Einmanna. Hræddur er ég um að það eigi eftir að liggja fyrir honum eftir næstu kosningar. Á umræddri hljómplötu er líka söngtextinn traustur vinur en þar segir m.a.: Mér varð á og þungan dóm ég hlaut, ég villtist af réttri braut.
Magnús, þú hefur ennþá tækifæri til þess að rétta kúrsinn og koma fram við þjóðina eins og heiðarlegur maður. Annars fer fyrir þér eins og félögum þínum sem þjóðin treystir ekki. Þú þarft að fara að leita þér að nýju djobbi eftir næstu konsingar.