Það er alveg með eindæmum hvað íslenskir neytendur láta taka sig í rassgatið…afsakið orðbragðið. Í hinu margumrædda og umdeilda góðæri höfum við, að því er virðist, sætt okkur við endalausa hækkun á matvöru, bensíni og öðrum nauðsynjum, mun meiri hækkun en eðlilegt getur talist og viðgengst í þeim löndum sem við berum okkur saman við á hátíðisdögum. Og hvað gerum við. Í mesta lagi fussum við og sveium við eldhúsborðið eða í sófanum heima og bölvum stjórnvöldum og þeim stórfyrirtækjum sem okra á okkur. En okkur dettur ekki í hug að grípa til aðgerða. Er það fyrir neðan okkar virðingu að mótmæla endalausum hækkunum? Getur verið að í góðærinu höfum við fyllst oflæti og séum svo djúpt sokkin í yfirborðskennd og flottræfilshátt að við myndum ekki fyrir okkar litla líf fara að mótmæla hækkunum, því hver vill láta líta út fyrir að hann hafi ekki efni á að borga uppsett verð? Það gæti nefnilega einhver haldið að maður væri fátækur, og slíkt lætur maður ekki spyrjast út! Og nú þegar farið er að harða á dalnum höldum við uppteknum hætti, það er sem allir vilji láta líta út fyrir að það lifi eins og fólkið sem birtist á forsíðum glans- og slúðurtímarita. Allir vilja eiga sjens á að komast í Hús og hýbýli, Innlit-Útlit eða vera í gestjgjafahlutverki í grand garðveislu í Gestgjafanum. Það er búið að búa til glansmynd sem alltof margir láta glepjast af. Til að halda í við þessa ímynd taka menn lán og lenda svo í kröggum. Sumir eru svo týndir í þessum glamúrheimi að þeir láta ekki sjá sig í lágvöruverslunum eins og Bónus því það samræmist ekki ímyndinni. Hvers konar helvítis kjaftæði og heilaþvottur er þetta…afsakið orbragðið.

Það er því ekki skrýtið að ungt fólk sé farið að hugsa sér til hreyfings, að flýja Skerið og freista tækifæranna erlendis, bæði í námi og starfi. Ég verð að játa að ég er alvarlega farin að íhuga þann möguleika. Það má þó ekki skilja þennan pistil sem svo að ég elski ekki land og þjóð, langt því frá. En hreina loftið, góða vatnið og náttúrufegurðinn ein heldur manni ekki hér þegar félagslegur aðbúnaður og velferð stórs og vaxandi hluta þjóðarinnar fer versnandi. Það er gott að búa á Íslandi ef maður getur látið enda ná saman en ef eitthvað bregður útaf og menn hætta að vera sjálfum sér nógir og þurfa á hjálp að halda er sem menn missi mannréttindi sín. Sem betur fer hef ég það ágætt miðað við marga í þessu þjóðfélagi en ég hef fengið nóg af sinnuleysi landans, jafnt valdhafa sem og okkar neytenda. Yfirsjónir og mistök stjórnmálamanna gleymast jafnóðum, þeim er ekki veitt neitt aðhald og komast upp með að snúa út úr þegar þeir eru spurðir ágengra spurninga og jafnvel setja þeir vissa fjölmiðla í bann ef þeir halda sig ekki á mottunni.

Það má vissulega líta á þetta sem uppgjöf af minni hálfu, en ég fæ varla miklu áorkað ein og sér, það breytir engu þó ég hætti að kaupa bensín í viku eða standandi á Austurvelli með mótmælaskilti við hliðina á Helga Hóseassyni. Einhvern vegin efast um að það skilaði árangri, það þarf samstöðu neytenda. Sú hugsun er því miður orðin allt of ríkjandi hérlendis að hlutirnir séu sjálfsagðir, komi bara af sjálfu sér, og það þurfi ekki að vinna fyrir þeim eða berjast gegn því sem miður fer. Ég er sjálf ekki alsaklaus af þessum hugsanahætti. Einfaldast væri bara að fylgja straumnum og fara til Danaveldis eða bara eitthvert…út vil ek. Ég held líka að það sé gott fyrir alla að búa erlendis, þó ekki nema til þess að fá samanburð. Kannski kemst ég að því að í útlöndum búa fantar og fúlmenni og að íslenski fiskurinn og fjallaloftið er best. Ég kem þá bara heim með skottið á milli lappanna og endurnýja kynni mín af aftanítökum íslenskra stórfyrirtækja og valdhafa. Ég vona bara innilega að íslenskir neytendur vakni til vitundar um að það berst enginn fyrir þá, við verðum að gera það sjálf.

Á morgun á svoað hækka bensínið enn eina ferðina, en við mótmælum ekki, nei það er bara best að loka augunum og láta olíufélögin taka okkur í óæðri endann. Við ættum að vera orðin vön því.