(Ath. Greinin er skrifuð sem dægrastytting, í guðanna bænum takið lífinu ekki of alvarlega!)

Ég þoli ekki fólk. Fólk er hávaðasamt, herskátt, dónalegt, og heimskt. Fólk ber ekki virðingu fyrir skoðunum annarra. Fólk þykist alltaf vita betur en allir aðrir. Fólk er sjálfselskt og tortryggið á annað fólk. Fólk getur ekki tekið þátt í málefnalegum umræðum. Fólk er til vandræða í heiminum. Heimurinn væri betri í alla staði ef hann væri ekki undirlagður af þessum hégómlegu og gráðugu meindýrum.

Þannig er skoðun mín á lífinu eftir að hafa skoðað heimasíðu Sambands ungra sjálfstæðismanna, www.sus.is. Þar er að finna hinar ýmsustu greinar sem gætu fengið hvaða vinstri mann sem er til að leggjast í þunglyndi. Þar tjá sig hinir ýmsustu ungu sjálfstæðismenn sem ganga villtir um landið allt, og virðist helsta markmið þeirra í lífinu vera að ásaka vinstri menn um að vera ómálefnalegir, og að lofsyngja sínar hetjur, svosem Jóhannes Pál páfa heitinn, kapítalismann og frelsi einstaklingsins.

Maður heyrir oft sagt að þeir sem eru vinstri sinnaðir eigi bara eftir að vaxa upp úr vitleysunni og mjaka sér yfir á hægri hliðina, það sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að þroskast. Það er litið á vinstri stefnu eins og einhverja unglingaveiki. Þeir sem ekki vaxa upp úr þessu hljóta því að vera afbrigðilegir (ég geng ekki svo langt að segja þroskaheftir).

Því kemst ég að þeirri niðurstöðu að ungir sjálfstæðismenn séu með þeim bestu í hópi þeirra skepna sem byggja okkar örlitlu plánetu. Þeir hafa ekkert að vaxa upp úr eins og hinir vinstri sinnuðu. Þeir hljóta að vera hinar fullkomnu verur, þar sem þeir þurfa ekki að þroskast upp úr vitleysu eins og kommúnisma. Það er því upplagt, fyrst slíkt virðist innan seilingar, að reyna enn frekar að ná fullkomnun. Ég legg til að allir vinstrimenn heimsins fremji fjöldasjálfsmorð, þá geta ungu sjálfstæðismennirnir a.m.k. hætt að ásaka okkur um ómálefnalegheit. Þá geta þeir líka einbeitt sér að sínu eigin frelsi (æ fyrirgefiði, frelsi einstaklingsins), sem er jú þeirra aðaláhugamál, í staðinn fyrir að vera sífellt að reyna að sannfæra hina. Ef þeir eru síðan lausir við vinstrimennina geta þeir unnið ótruflaðir að eigin tortímingu, og þegar þeim hefur loks tekist það er heimurinn loksins orðinn fullkominn, og ég laus við allt þetta fólk sem er sífellt til vandræða.

Eini gallinn er sá að ég sækist ekki eftir fullkomnun. Ég hef gaman af að lesa þessar greinar, og svo fær maður ágæta útrás á lyklaborðinu eftirá við að skrifa greinar eins og þessa í mótmælaskyni. Ég myndi hinsvegar alveg vilja skipta því út fyrir málefnalega umræðu, sem virðist heldur lítið af í samfélagi mannfólksins. Já, ætli ég þurfi ekki á þeim að halda, þessum heiðursmönnum (og konum) sem kalla sig unga sjálfstæðismenn. Mér þætti vænt um ef þeir viðurkenndu nauðsyn vinstri sinnaðra, en það er kannski of fjarlægur draumur. Við erum víst of ómálefnaleg.