Vitiði hvað Múrinn, er fínasta veftímarit. Fyndið, oft vel skrifað og skemmtilegt. Inn á því má finna urmul af samsæriskenningum og að mínu mati fremur lélegar hugmyndir um efnahagsmál. En eitt mega þeir eiga, Vinstri Grænir. Þeir benda manni oft á ýmsa spillingu og standa alltaf fyrir sínu. Þeir sveigjast afar lítið hvort sem það er gott eða slæmt, en a.m.k. þá veit maður hvar maður hefur þá.
Inn á Múrnum fann ég þessar prýðisgreinar sem ég ætla að deila með ykkur huganotkendum af því að ég er búinn að rökræða svo mikið um Íraksmál að ég nenni sjálfur ekki að skrifa um þau og gef því bara Vinstri Grænum orðið.

Þumalputtaregla um stríðsæsingamenn

4.1.2005

Stríðsæsingamenn seilast langt til að gera sína heimsmynd að allra. Nauðsynlegt þótti að ráðast gegn einu fátækasta landi veraldar, Afghanistan, til að hafa hendur í hári Osama bin Laden og Mullah Omar vegna þátttöku þeirra í hryðjuverkaárásinni þann 11. september 2001. Þótt ekki hafi náðst í bin Laden og Mullah Omar hafi komast undan hinum fullkomna Bandaríkjaher á skellinöðru, hættu þeir að skipta miklu máli fyrir vestrænu stríðsvélina.

Upp úr galdrahattinum var dreginn nýr óþokki, Saddam Hussein, og ætlaði fagnaðarlátunum meðal klappstýruhóps bandarískra stjórnvalda ekki að linna. Okkur var sagt að nú væri nauðsynlegt að ráðast gegn þjóð sem bjó við hörmulegt viðskiptabann. Ástæður þess voru að Saddam Hussein átti gereyðingarvopn, vildi hann ólmur nota þau og var í stöðugu símasambandi við vin sinn, Osama bin Laden.

Þegar ekkert af þessu reyndist rétt var skipt um gír og tilgangurinn með hernaðarbröltinu sagður vera frelsun írösku þjóðarinnar og að koma á fót lýðræði í landinu. Eftir að helstu pótintátarnir höfðu æft sig á þessari nýju línu braust út borgarastyrjöld í Írak og andspyrna gegn hernámsöflum jókst dag frá degi. Áður en borgarastyrjöldin í Írak hófst hafði forseti Bandaríkjanna lýst því yfir að stríði í Írak væri lokið.

Þessa dagana reyna stríðsæsingamenn að sannfæra okkur um að ástæður Íraksstríðsins tilheyri fortíðinni og ekki þurfi að minnast á þessa löngu liðnu atburði lengur, en nú eru bráðum liðin tvö ár frá innrás. Við þetta er bætt að nú skipti öllu máli að einbeita sér að ,,uppbyggingarstarfi” en þá er verið að vísa til starf hernámsliðsins í Írak.

Að kalla það sem er að gerast í Írak um þessar mundir ,,uppbyggingarstarf” sýnir hversu skökk heimsmynd stríðsvélarinnar er. Í Írak ríkir óöld vegna veru innrásarhers sem ber ábyrgð á dauða fjölda fólks og pyntingum á óbreyttum borgurum. Þrátt fyrir að upp hafi komist um pyntingar í Abu Ghraib var þeim haldið áfram. Í þessu andrúmslofti er allt tal um lýðræði og uppbyggingu hjóm eitt. Bandaríkjaher er eins og fíll í postulínsbúð. Þeir einu sem eru ánægðir með veru hans eru hinir sömu og vilja sjá hann í sem flestum hernaðaraðgerðum.

Á nýju ári er gott að vera á varðbergi gegn málflutningi stríðsæsingamanna. Góð þumalputtaregla er að ætla þeim ætíð hið þveröfuga við það sem þeir segja.

Grein nr.2

Furðuleg dauðasveitaumræða

12.1.2005

Bandaríska tímaritið Newsweek sagði frá því 8. janúar síðastliðinn að innan varnarmálaráðuneytisins væri rætt um að koma á fót sérstökum dauðasveitum í Írak til að berjast við andspyrnumenn í landinu. Eðlilega þykja það tíðindi þegar slíkt lekur út til fjölmiðla enda grátbroslegt ef þeir sem þykjast ætla að tryggja öryggi allra Bandaríkjamanna geta ekki haldið slíkum upplýsingum innan sinna vébanda með sæmilegu móti.

Margt er hins vegar undarlegt við þessa umfjöllun, bæði innanlands og utan. Newsweek virðist furðulega umhugað um að láta líta út fyrir að allir þræðir komi saman í höndum John Negroponte, núverandi sendiherra Bandaríkjanna í Írak. Vitnað er til þess að hann hafi verið sendiherra í Hondúras á árunum 1981-1985, minnt á starfsemi dauðasveitanna í El Salvador og hernað Contra-skæruliðanna í Nicaragua. Þótt sá sem þetta ritar hafi afskaplega lítið álit á John Negroponte er vandséð að Pentagon hafi þurft liðsinni hans við að láta sér detta annað eins í hug vegna borgarastríðsins í Írak.

Þjálfunarbúðir slíkra hersveita voru vissulega í Hondúras á sínum tíma, áður en þær voru fluttar til Fort Benning í Georgíu-ríki. En þar hafa þær verið starfræktar allt til þessa dags og eru vel þekktar undir nafninu „School of the Americas“. Þar af leiðandi er varla hægt að tala um að nú hyggist Pentagon-menn dusta rykið af gömlum og gleymdum baráttuaðferðum.

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins segir: „Mönnum er enn í fersku minni þegar stjórn Reagans forseta lét þjálfa Contra hersveitirnar til að berjast gegn leiðtogum vinstri uppreisnarmanna í Nicaragua segir breska blaðið Times.“ Það er furðulegt að sjá því haldið fram að Contra-skæruliðarnir hafi verið þjálfaðir til að berjast gegn „uppreisnarmönnum“ í Nicaragua. Árið 1979 komust Sandínistar, undir forystu bræðranna Daniel og Humberto Ortega, til valda í Nicaragua eftir að einræðisstjórn Anastasio Somoza var steypt af stóli. Contra-skæruliðarnir, sem vissulega voru þjálfaðir, fjármagnaðir og vopnaðir af Bandaríkjastjórn börðust gegn ríkisstjórn Nicaragua en ekki uppreisnarmönnum. Þetta segir raunar í frétt á vef Times en fréttamaður RÚV virðist ekki hafa gefið sér tíma til að fara rétt með.

Stærsta spurningin í málinu er hins vegar þessi: Hvað er það, nákvæmlega, sem yrði öðruvísi við framgöngu Bandaríkjahers í Írak ef settar yrðu á fót formlegar dauðasveitir til viðbótar þeim hermönnum, sérsveitarmönnum og pyntingameisturum sem þar eru að störfum í nafni lýðræðis og uppbyggingar?