Það kom mér virkilega á óvart þegar tilkynnt var í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöld að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði ákveðið að útiloka Kristinn H. Gunnarsson frá þátttöku í nefndum Alþingis. Framsóknarflokkurinn kom á óvart en ég hélt að forystumenn flokksins hefðu ekki bein í nefinu til að taka á stærsta vandamáli flokksins, þ.e. Kristni.

Það er greinilegt af þessari ákvörðun þingflokksins, að þar hafa menn verið orðnir langþreyttir á Kristni, en það var aldrei hægt að treysta á hans stuðning í neinum málum. Það versta var að hann lak öllum trúnaðarupplýsingum sem ræddar voru í þingflokksherbergi Framsóknar jafnóðum í fjölmiðla og kom öðrum þingmönnum, sem og flokksforystunni, í vandræði vegna þessa.

Það má telja upp mörg mál þar sem Kristinn hefur spilað sólóleik innan Framsóknarflokksins. Þegar nafni Kristinn H. Gunnarssonar er flett upp á mbl.is finnast nánast eingöngu fréttir þar sem Kristinn er á móti einhverju sem ríkisstjórnin er vinna að.

Ein frétt mbl. frá júní er svona:Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hafi ekki farið út fyrir stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar vegna umræðu um fyrirhugaðar skattalækkanir, að því er fram kom í fréttum RÚV. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur hins vegar sagt að hann teldi að forsætisráðherra hafa farið fram úr samstarfsflokknum í ríkisstjórn þegar Davíð hafi greint frá því að tekjuskattur einstaklinga ætti eftir að lækka um 4% á þremur árum.

Önnur frétt hljóðar svona: Í sjávarútvegsnefnd hefur fundum sjávarútvegsnefndar verið frestað fjórum sinnum vegna ágreinings um smábátafrumvarpið. Kristinn H. Gunnarsson, Framsóknarflokki, hefur gengið til liðs við stjórnarandstöðuna, sem hefur ekki viljað taka það úr nefndinni. Fundur er boðaður í nefndinni kl. hálfátta í kvöld.

Í sumar gekk svo Kristinn til liðs við stjórnarandstöðuna í fjölmiðlamálinu og myndaði nýjan meirihluta innan viðskipta- og efnahagsnefndar. Það er hægt að finna mörg fleiri mál þar sem Kristinn hefur barist gegn málum sem ríkisstjórnin hefur unnið að.

Kristinn H. Gunnarsson er sér kapítuli útaf fyrir sig. Hefur mér oft orðið svo að orði síðustu vikunnar að ef allir hugsuðu eins og Kristinn H. þá gengi þingræðið aldrei upp á Íslandi. Kristinn virðist mynda sér skoðun eftir skoðannakönnunum Gallúps og tek ég undir orð Guðlaugs Þórs þar sem hann sagðist votta framsóknarmönnum samúð sína með að hafa mann eins og Kristinn H. innanborðs.

Kristinn H. er í miklu kapphlaupi við vinsældir og trúi ég ekki öðru en að framsóknarmenn séu orðnir langþreyttir á honum.

Ég held að Kristinn H. ætti að átta sig sjálfur. Hann er ekki í réttum flokki. Hann var þingmaður Alþýðubandlagsins áður en hann gekk til liðs við Framsóknarmenn. Sjálfur hef ég aldrei haft miklar trú á stjórnmálamönnum sem skipta um flokk, finnst það svoldið eins og menn skipti um lífsviðhorf.