Bara svona til að reyna að láta menn rífast undir nýrri grein, þá datt mér í hug að velta því upp enn og aftur hvaða aðilar gætu komið sterklega til greina sem forseti Íslands og virkað betur sem sameinginartákn en sumir aðrir.

Davíð myndi eflaust ekki sóma sér verr en Ólafur Ragnar sem forseti, ekki heldur Jón Baldvin eða margir aðrir núverandi eða fyrrverandi þingmenn, en þó held ég að betra væri að fá einhvern sem ekki hefur verið í fremstu víglínu í pólitíkinni. Bryndís Schram, Ólafur Jóhann, Ómar Ragnarsson, Hermann Gunnarsson, Páll Magnússon, Arnar Jónsson o.fl. o.fl. kæmu sterklega til greina, það væri gaman að sjá álit ykkar á þessu fólki og einnig aðrar tillögur. Hvaða eiginleikum þarf forseti Íslands að vera gæddur?

Nú eru líklega í mesta lagi fjögur ár í næstu forsetakosningar, Ástþór er nú þegar búinn að halda því fram að hann bjóði sig fram aftur þá. Finnst ykkur að það eigi að hækka lágmarksfjölda stuðningsyfirlýsinga fyrir framboði til forseta? Ætti að setja lög um t.d. að ef frambjóðandi tapar kosningum þrisvar með afgerandi mun, að þá sé honum óheimilt að taka þátt aftur, eða t.d. ef menn fá innan við 2% atkvæða í kosningum, þá séu þeir búnir að fá sitt tækifæri og hafa ekki kost á því að bjóða sig fram aftur? Dálítið hart, en eitthvað þarf að gera, Ástþór hefur dregið forsetakosningarnar niður á of lágt plan í undanförnum forsetakosningum að mínu mati.

Að lokum vil ég fara fram á það að þeir sem hafa fyrir því að svara þessu sýni þann þroska að tala ekki um heimsku hvers annars eða annarra og fjalli um þetta málefnanlega, án þess að nota fúkyrði. Sýnið nú einu sinni almenna kurteisi og berið virðingu fyrir hverjum öðrum. Takk fyrir.