Síðustu daga hefur umræðan orðið æ háværari um það að framhaldskólar í þjóðfélaginu séu að fyllast og að sumir skólar sjái sér ekki fært að verða við óskum nemenda sem vilja halda áfram í frekara námi. Þessi þróun er auðvita ekki góð ef skólar eru að verða of litlir fyrir stækkandi og menntfúsa þjóð og getur þetta haft áhrif á hversu margir hætta námi núna, þrátt fyrir vilja um annað, og fari aldrei aftur í nám sökum plássleysis.

En hvað er til ráða til að fjölga sætum framhaldskólanna? Jú að setja meiri peninga inn í kerfið, eins og stjórnmálamenn eru að segja og lofa, er ekki svo vitlaus hugmynd ef jafnt á við um alla skóla þar sem þörfin er á að bæta úr fjárhag margra skóla sem berjast í bökkum með að halda sjó sökum fækkunar í heimabyggðum og aukinnar ásóknar landsbyggðarinnar suður til Reykjavíkur.

En til eru fleiri leiðir sem hægt er að líta á til að fjölga þeim nemendum sem fá sæti í framhaldskólunum og er það að nýta þau sæti sem fyrir eru víðsvegar um landið í framhaldskólum sem þar eru til staðar og eru margir hverjir van nýttir. Allir bjóða þeir upp á sambærilegt nám og þeir sem eru í höfuðborginni ef ekki betra og persónulegra nám sem nýtist oft betur til framtíðar. Auk þess sem þessi leið gefur nemendum færi á að kynnast heimavistarlífi og öðru umhverfi en því sem Sódóma-Reykjavíkur gefur þeim sem þar eru.

Svo ef við lítum á fjárhagshliðina á því að senda nemanda út á land til framhaldskólanáms þá er hún svipuð og sú að vera í skóla í Reykjavík. LÍN (Lánasjóður íslenskra námsmanna) veitir þeim nemendum sem búa á höfuðborgarsvæðinu jafnan möguleika á styrk og þeim sem fara utan af landi til höfuðborgarinnar til náms. Einnig bjóða flestir landsbyggðaskólar upp á heimavistir þar sem nemandi fær fullt fæði, aðstöðu til lærdóms, þvottaaðstöðu þar sem starfsmaður sér um að þvo af hverjum og einum og síðast en ekki síst er fjölbreytt félagslíf sem gefur meiri möguleika á útiveru og tengsl við náttúru og sérstöðu landsins. Allt þetta er á sanngjörnu verði sem styrkurinn frá LÍN ætti að ná yfir að einhverju leiti. Auk þess er þreyta og amstur sem fylgir því að hafa nemenda heima við færð út á land og eina áreitið sem fylgir eru símhringingar sem berast þegar tilkynna ber stöðu mála hverju sinni.

Svo ef við snúum okkur aftur af þeim draugi sem við kennum við landsbyggðarflótta sem herjar á landsbyggðina í dag þar sem unga fólkið flytur suður til að búa sér betri tíð í borg tækifæranna. Við því myndi ég segja að nemandi sem kýs að fara úr amstri borgarinnar og velja friðsæld landbyggðarinar til náms kæmist í þann hóp sem myndi frekar kjósa að búa úti á landi en sá sem veldi nám á höfuðborgarsvæðinu.

Eða hvað haldið þið?

S. Holmes