Er Sólveig Pétursdóttir rétta konan í starfið? Í gær eða fyrradag fór ég að hugsa aðeins um lögregluna á Íslandi í kjölfar þess að um þarseinustu helgi var ég stöðvaður að ástæðulausu tvisvar í umferðinni, sitt hvorn daginn og fékk að kynnast ömurlegum samskiptahæfileikum lögreglunnar. Hér er afrakstur pælinganna.


Það vita allir að það er sjaldgæft að hitta á hressan og sanngjarnan lögregluþjón þegar maður á erindi á annað borð við lögregluna, að sjálfsögðu á ég við ekki sem sakamaður. Oftast eru glaðværu mennirnir innan hópsins nýbyrjaðir og hafa ekki enn fengið sig fullsadda af dónaskap og ömurlegum afsökunum til að sleppa við sektir og ávítanir t.d. í umferðinni.

Það þarf því líklega sterkar taugar til að halda út í starfinu. Þá datt mér í hug grein sem ég las um enska lögregluskipulagið. Fyrir um 10 árum eða svo minnir mig var eitthvurt allsherjar átak í gangi í ensku löggunni sem snerist um að auka virðingu lögreglunnar þar í landi.

Og hvernig er slíkt framkvæmt? Að sjálfsögðu þarf lögreglan að eiga frumkvæðið og tilgangur og hugmyndafræði lögreglunnar í Bretlandi var algjörlega hugsaður upp á nýtt. Almenna löggæslan þar lítur nú á sig sem nokkurskonar þjónustuaðila borgaranna. Hún býður fram aðstoð við margvíslega hluti, litla hluti eins og að bjarga ketti úr tré segja ókunnugum til vegar og reyna að koma utangarðsmönnum á réttan stað í kerfinu þ.e. ekki bara stinga þeim inn. Þetta eru líklega ekki mjög góð dæmi hjá mér en þið skiljið inngang hugmyndafræðinnar.

Með svona verkum aflar lögreglan augljóslega virðingu borgaranna og það verður ekki jafn mikil togstreyta í sambandi borgara og löggunnar, eins og er hér á landi að mér finnst. Hérna virðast allir hata lögguna og haga sér samkvæmt því og auðvitað bitnar það á störfum hennar og þeir verða enn pirraðri út í okkur og þannig heldur þetta áfram og áfram.

Nú er svo komið að maður fer varla á djammið án þess að heyra ljótar sögur af hinu og þessu sem flokkast má undir vanrækslu lögreglunnar. Stúlka barin til óbóta og löggan stendur aðgerðarlaus hjá. Þennan vítahring þarf að brjóta og það verður bara gert með stóru og yfirgripsmiklu átaki sem hefst á hinu háa herrans Alþingi.

Fyrsta skref er að losa okkur við Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra. Að mínu mati er hún ekki traustvekjandi í sínu starfi og virðist ekki búa yfir mikilli þekkingu á valdsviði sínu.

Látið í ykkur heyra ef þið eruð ósammála, hvað hefur hún gert gott í sínu starfi?