Á dögunum skrifaði ég þessa ritgerð fyrir stjórnmálafræði 103 og datt í hug að deila henni með ykkur. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða skoðanir sem eru að margra mati taldar “öfgakenndar” bið ég ykkur vinsamlega að hlífa mér við öllu skítkasti.

Um anarkisma

Hvað er anarkismi?
Anarkisminn er sú hugmyndafræði í stjórnmálum sem hefur hvað mesta trú á einstaklingnum. Það er erfitt að staðsetja anarkismann á vinstri/hægri kvarðanum en honum er þó gjarnan skipt í tvö megin viðhorf; vinstri og hægri anarkisma. Eins og fram kemur á íslensku vefsíðunni http://www.andspyrna.net eru þó engir tveir anarkistar eins og væru tíu anarkistar beðnir um skilgreiningu á anarkisma fengjust tíu mismunandi svör. Flestir hafa þeir þó sömu meginsýn á hvers kyns yfirvald; það er óæskilegt sama í hvaða formi sem það birtist. Yfirvald jafngildir í þeirra augun valdbeitingu sem setur fólki skorður og hindrar það í að þroska hæfileika sína. Það er aðallega í útfærslu hugmyndanna og áherslum sem anarkistar skiptast í vinstri og hægri fylkingar. Vinstri anarkistar leggja meira upp úr samvinnu og að sjá einstaklinginn í nánu samhengi við aðra einstaklinga á meðan hægri anarkistar álíta einstaklinginn vera hálfpartinn einan í liði gegn umheiminum, þ.e.a.s að algjörlega frjáls samkeppni tryggi sem best lífsgæði. Hægri anarkistar hneigjast einnig til svipaðs verðmætamats og frændur þeirra frjálshyggjumennirnir, þeir álíta auðinn aðallega felast í fjármagni og fyrirtækjum á meðan vinstri anarkistar sjá auðinn í fólkinu sjálfu og sköpunarkrafti þess. Rétt er að minnast á að á flestum vefsíðum sem höfundur skoðaði virðist því viðhorfi haldið á lofti að aðskilja beri hægri anarkismann frá anarkismanum sjálfum þar sem hann virðist í það minnsta í fljótu bragði vera einungis frjálshyggja í sínu framsæknasta formi. Höfundur getur tæplega kallað sig anarkista og treystir sér því ekki til að dæma um slík “innbyrðismál”.
Eins og áður sagði er anarkisminn langt því frá að vera einhæf hugmyndafræði og markast hann því af ýmsum straumum og stefnum. Margir minnihlutahópar á borð við femínista og samkynhneigða hafa fundið sig í stjórnleysislífspekinni þar sem valdníðsla og kúgun t.d. í formi feðraveldis og kirkju hafa oftar en ekki komið sérlega illa niður á þeim og jafnvel viljað ganga endanlega milli bols og höfuðs á réttindabaráttu þeirra. Anarkó-femínistar hafna lausnum ríkisins á vandamálum þeirra, t.d hvað varðar bann á klámi í því skyni að minnka ofbeldi gagnvart konum. Eins telja anarkó-lesbíur/hommar að ríkisvaldið sé of bundið af normum og siðvenjum hvað varðar hjúskaparform og sambönd fólks yfirleitt til að geta raunverulega stutt við bakið á réttindabaráttu þeirra. Báðir þessir hópar hneigjast frekar til svokallaðra “beinna aðgerða” (direct action). Þar er t.d átt við grasrótarhreyfingar samkynhneigðra sem láta sig varða málefni AIDS sjúklinga og útbíta hreinum sprautunálum til fíkla á götunni í sjálfboðavinnu.
Venjulega er hinn klassíski anarkismi talinn vera trúleysisstefna þar sem undirgefni við æðri máttarvöld er sett í sama flokk og undirgefni við ríkisvald, kirkju eða hvers kyns “heftandi öfl”. Þó er alltaf ákveðinn hópur anarkista sem hneigist til andlegra málefna. Sjóða þeir þá gjarnan saman hugmyndir heiðni, austrænna fræða, dulspeki eða frjálslyndrar guðfræði og hugmyndafræði anarkismans. Anarkistar hneigjast hins vegar ekki til að boða trú sína á nokkurn hátt eða að “troða henni upp á fólk” því að trú er að þeirra mati persónulegt val sem hentar ekki öllum þótt ákveðinn hópur finni sig í henni. Þess má geta að á mörgum vefsíðum sem höfundur skoðaði er jafnvel að finna örlitla fordóma gagnvart hvers kyns trú þar sem hún þykir á vissan hátt brjóta í bága við kjarna anarkistískrar hugsunar.
Tækniframfarir vs. umhverfisvernd er einnig umdeildur þáttur innan anarkistaflórunnar þrátt fyrir að samkvæmt klassískri hugmyndafræði anarkismans hafi rökhyggja og stöðugar tækniframfarir verið taldar æskilegir þættir í uppbyggingu og þróun samfélaga. Anarkistar í dag skiptast engu að síður í tvær megin fylkingar hvað þetta varðar; þá sem eru hlynntir tækniframförum sé rétt farið með þær og af ábyrgð og hina sem eru andsnúnir vísindum og tækni og telja að fyrirmyndarsamfélag anarkista geti ekki gengið upp nema horfið sé aftur til frumstæðari lifnaðarhátta þar sem búið er í nánum tengslum við náttúruna. Síðari hópurinn er þó tiltölulega fámennur.
Annað deilumál er hugsunin á bak við þjóðerni. Anarkistar hallast almennt frekar að alþjóðahyggju en þjóðernisstefnu og telja að yfirvöldum henti best að innprenta þjóðernisást og fordóma gagnvart öðrum þjóðum til að tryggja betur sín eigin völd. Á þessu eru þó undantekningar. Margir anarkistar hafa t.d samúð með málstað Palestínu-Araba og ýmissa kúgaðra þjóðflokka þar sem þeir telja að sjálfstæði þeirra sé skárri kostur en alræði, kúgun og arðrán herraþjóðanna.

Hver átti hugmyndina?
Heyrst hafa raddir um að fyrstu anarkistasamfélögin hafi verið samfélög veiðimanna og safnara í fornöld s.s fyrstu samfélög hins eiginlega mannkyns. Um það má deila hvort allir veiðimenn og safnarar hafi verið engu yfirvaldi háðir og hvort gæðunum innan flokka þeirra hafi ætíð verið skipt jafnt á milli allra en í fljótu bragði virðist þetta ekki vera fráleit hugmynd - þessi samfélög hafa e.t.v verið anarkistísk án þess að vita af því.
Fyrstu ritin með anarkistískri lífssýn birtust hins vegar í Kína á sjöttu öld fyrir kristsburð. Í höfuðriti Taoista Tao te ching eru útlistuð skýr anarkistísk lífsspeki. Meginhugtak Taoismans er wu-wei; ekki yfirvald. Taoisminn gerir kennir að fái maðurinn að haga sér eins og náttúran býður honum verði engir glæpir til staðar og skýrt er tekið fram að yfirvald geti ekkert gert nema illt; því fleiri reglur; því fleiri glæpir. Þrátt fyrir að langt sé síðan Tao te ching var skrifað segir þetta þó meira en mörg orð um megininntak anarkisma nútímans.
Anarkisminn sem stjórnmálastefna varð til um miðja nítjándu öld. Sá sem fyrstur hóf útbreiðslu fagnaðarerindisins var Pierre-Joseph Proudhon. Þrátt fyrir að hann og hans skoðanabræður séu venjulega taldir frumkvöðlar anarkismans eins og við þekkjum hann í dag ásamt ýmsum pönkurum frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar, voru þeir aldrei í vafa um að anarkisminn væri ekki ný uppfinning fyrir þá að hreykja sér að heldur einungis gamalt hjálpræði bænda og verkalýðs í samfélagi þar sem fjármagnseigendur og yfirstétt kúgar þá sem minna mega sín.

Niðurlag
Í heildina litið má segja að anarkisminn sé ekki einungis stjórnmálaskoðun og stefna heldur lífsstíll sem mótar alla sýn á tilveruna og viðhorf. Anarkismi getur því átt við alla þætti tilverunnar. Að mati höfundar er anarkismi mjög misskilið fyrirbæri og full ástæða til að draga hann betur fram í dagsljósið án þess að rakka hann niður og afgreiða sem tímabundna uppreisn ungra, fávísra skemmdarvarga. Greinahöfundar á anarkista vefsíðunum sem höfundur skoðaði virðast í það minnsta hafa töluvert að segja og ekki of lítið milli eyrnanna og hvet ég því alla með áhuga á stjórnmálum til að leggjast undir feld fávísinnar í að minnsta kosti örlitla stund og gefa sér tíma til að lesa þær áhugaverðu greinar sem þar er að finna. Þó ekki væri nema fyrir líflega umræðu!


Heimildir
http://www.infoshop.org/faq/index.html
Ýmsir höfundar
sótt 28/05 ‘04
http://www.andspyrna.net/
Sigurður Harðarson
sótt 28/05 ‘04
http://www.crimethinc.com/
Ýmsir höfundar sótt 28/05 ‘04
http://www.spunk.org
Ýmsir höfundar sótt 28/05 ‘04