Fjölmiðlafrumvarpið og nokkur lykilatriði Upplýsingar um fjölmiðlafrumvarpið

Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á útvarpslögum og samkeppnislögum. Frumvarpið er byggt á skýrslu nefndar sem menntamálaráðherra skipaði að beiðni ríkisstjórnarinnar á síðasta ári og var falið að skoða reglur um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi. Á undanförnum árum hefur verið töluverð umræða um starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi. Fjölmiðlamarkaðurinn er mikilvægur vegna áhrifa hans á allt þjóðlífið og því mikilvægt að tryggt sé að starfsumhverfi fjölmiðlanna sé þannig að þeir fái sem best sinnt skyldum sínum. Fjölmiðlunum ber að veita almenningi óbjagaða mynd af samfélaginu, stjórnmálalífinu, viðskiptalífinu o.s.frv. Nefnd menntamálaráðherra skilaði áliti sínu um fjölmiðlamarkaðinn í apríl 2004. Það álit var vandað og vel unnið og þar kom skýrt fram að núverandi ástand á fjölmiðlamarkaðinum væri ekki viðunandi og breytinga væri þörf. M.a. kom fram að nefndin hafði hvergi í heiminum fundið dæmi þess að fyrirtæki, sem hefði jafn mikil viðskiptaumsvif og Baugur Group hefur á Íslandi, hefði jafn sterka stöðu á fjölmiðlamarkaði og raun ber vitni. Af ofangreindum ástæðum er frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum lagt fram nú.

Meira um þetta er á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins - www.xd.is


Tíu lykilatriði verði frumvarpið að lögum

1. Lögin eru almenn, beinast ekki gegn einhverjum tilteknum fyrirtækjum. Vegna mikilvægis fjölmiðla fyrir almenning er eðlilegt að setja sérlög um starfsemi þeirra, rétt eins og sérlög eru sett t.d. um starfsemi fjármálafyrirtækja.

2. Markmið laganna er að tryggja eðlilegt umhverfi fjölmiðla á Íslandi.

3. Lögin koma í veg fyrir að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu geti átt fjölmiðla.

4. Markaðsráðandi fyrirtæki þurfa strangt aðhald fjölmiðla. Slíkt aðhald verður ekki trúverðugt ef meirihluti fjölmiðla er t.d. að stærstum hluta í eigu markaðsráðandi fyrirtækis.

5. Prentmiðlar og ljósvakamiðlar geta ekki verið á sömu hendi, það tryggir jafnvægi á fjölmiðlamarkaði og er sambærilegt við reglur sem gilda víða erlendis.

6. Hámarkseign (25%) tryggir dreifða eignaraðild að ljósvakamiðlum.

7. Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar er eðlileg og sú sama og við önnur viðamikil mál.

8. Alþingi fær nægan tíma til að ræða frumvarpið. Þingstörfum lýkur ekki fyrr en Alþingi hefur tekið allan þann tíma sem þurfa þykir til að afgreiða málið.

9. Erlendis eru margskonar reglur sem stjórnvöld setja um fjölmiðlamarkaðinn. Þeim er ætlað að tryggja lýðræðislega umræðu og að fjölmiðlar sinni hlutverki sínu.

10. Ef ljósvakamiðlar eru rekstrarhæfir og geta skilað eigendum sínum eðlilegum arði, þá ætti ekki að verða skortur á fjárfestum til að koma í stað þeirra fyrirtækja sem sökum markaðsráðandi stöðu sinnar mega ekki eiga í ljósvakamiðlum.

Petrea Jónsdóttir tók saman.

Kveðja,
Bobobjorn