http://willysutton.blogspot.com/2004_04_01_willysutton_ archive.html#108267229297276100

Fátækt og ríkisdæmi er algengt umræðuefni og alveg sérlega svo stuttu fyrir kosningar. Fólk kemur með ýmsar tölur sínu máli til stuðnings um að fátækum sé að fjölga eða fækka. Einnig er talað um hið margfræga ‘bil milli fátækra og ríkra’ sem hefur víst verið að aukast síðastliðin hundrað ár, þótt engin vilji þó meina að við séum verr sett í dag en í byrjun síðust aldar.

Vandamálið byrjar strax og þegar viðmælandi opnar munninn; Fátækt, hvað er það nákvæmlega. Það er útilokað að komast að neinni rökrænni niðurstöðu nema að við vitum að við séum að tala um sama hlutinn. Það er ekki jafn auðvelt að skilgreina jafn auðskilið hugtak og fátækt og menn ætla í fyrstu. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands byggir skilgreiningu á 50% af meðalfjölskyldutekjum á hverjum tíma og stjórnmálamenn í öllum flokkum apa það eftir. Það þarf ekki mikla rökfræði-kúnstir til að sýna að sama hversu mikið tekjur aukast í landinu þá verður fátækt ávallt til staðar. Allt tal um fátækt sem byggir á svona skilgreiningum er ekkert til að ræða um, enda byggir hún á fádæma heimsku.

Hvað þá með tekjur eða eignir? Er ekki tilvaðið að skilgreina einhvern sem er með miklar tekjur sem ríkan og tekjulágan eða án tekna sem fátækan? Jafnvel þótt engin opinber skilgreining sé til á fátækt er nokkuð ljóst að stjórnmálamenn einblína á tekjur og eignir ef skattastefna undanfarinna ára er skoðuð. En er einhver ríkur þótt hann sé með háar tekjur eða eigi miklar eignir. Það er ekki alltaf þannig. Flestir námsmenn búa við algera fátækt, bæði ef horft er á eigir eða tekjur, en flestir þeirra geta þó nýtt námið til að komast í ágætis stöðu að námi loknu og vinna meira en flestir til að grynnka á skuldum og safna fyrir íbúð. Það telur þó enginn 27 ára verkfræðing vera neitt sérlega ríkan þótt hann hafi góðar tekjur. Einnig er það til að fólk hafi lágar tekjur en á miklar eignir. Það er í raun mjög algengt. Fjölmargt eldra fólk á stórar eignir skuldlaust og á jafnvel góðar summur í bankanum. Samkvæmt opinberri tölfræði má draga þá ályktun að afi og amma sem búa í risa húsi á nesinu séu fátæklingar þó þau séu svo efnuð að þau nenna ekki að vinna lengur.

Málið flækist þegar hugsað er útí þá staðreynd að fólk er ekki bara einhver tölfræði sem frosið í tíma um leið og það lendir í excel skjali hjá einhverjum hagfræðinema. Í mannheimum heldur þetta fólk sem stendur á bakvið tölurnar áfram með sitt líf. Langflestir flakka síðan á milli þeirra flokka sem hagfræðingarnir hafa skilgreint af stakri nákvæmni. Námsmenn leggja á sig sjálfskipaða fátækt um leið og þeir hefja nám og reyna flestir að klifra upp þjóðfélagsstigann að námi loknu. Fólk getur misst allt sitt eða unnið í happdrætti og, eins og algengt er, erft fúlgur eftir foreldra eða ættingja. Í raun get ég ekki munað eftir neinum sem ég þekki sem hefur verið í sama tekju eða eignaflokki til lengri tíma litið. Þetta flækir málin og tekur smá tíma að útskýra þannig að stjórnmálamenn forðast að kafa of djúpt í þessi mál.

Hver er þá niðurstaðan: Jú, biðraðir í einhverju kerfi aukast vegna aðgerða stjórnvalda og stjórnmálamenn flykkjast í sjónvarpið og segja, sko, fátækt hefur aukist.