Ekki er skapið sem best í dag þar sem mér var að berast bréf frá Framsóknarstofnun (Tryggingastofnun). Það er greinilega ekki nóg að læknarnir mínir skrifi þeim bréf og segi þeim sorgar-/sjúkrarsöguna mína heldur sendið mér í pósti spurningalista til að tékka á hversu veik ég tel mig vera. Ég hef verið það sem er kallað “tímabundinn öryrki” og hef verið það “heppin” að vera það ung að fá hæsta stig öryrkjabótanna. Ekki er það nú mikil laun miðað við það sem ég hafði hérna áður en ég sætti mig við þetta, enda orðin stimplaður aumingi.

Það er ekki nóg að maður skammist sín á hverjum degi við að rétta fram kortið sitt til að fá litla afsláttinn sinn, heldur verð ég nú að bíða í 6-8 vikur án þess að hafa neitt á milli handanna á meðan hinn heilagi tryggingalæknir fer yfir umsóknina mína og spáir í hvort ég sé að svindla á kerfinu. En þetta er víst ekki nógu mikil niðurlæging heldur fylgir með UMSÓKN þar sem ég þarf að sækja um bæturnar eins og um starf væri að ræða!

Jæja maður sest niður með pennann og reynir eftir bestu samvisku að svara sem réttast og eftir mikla skriffinsku þá loks lýkur maður enn einni niðurlægingunni.

Núna þarf ég að bíða í 6-8 vikur eins og ég skrifaði hér fyrir ofan að bíða eftir svari og á meðan er lyfjakostnaðurinn yfir 60.000 kr. fyrir mig og þarf ég að leita til ættingja minna um aðstoð til að geta lifað af þessar vikur.

Nú ef ég verð svo “heppinn” að fá aumingjastimpilinn aftur á mig, þá fæ ég mínar 89.000 kr og kort. En ekki er öll sagan sögð. Nú tekur við annað Framsóknarbæli, en það er Heilbrigðiskerfið. Þeir sáu allt í einu að við sjúklingarnir höfðum það of gott eftir hækkun bótanna þannig að þeir ákváðu að taka minni þátt í þeim lyfjum sem öryrkjar nota mest, en það eru örvandi lyf, þunglyndislyf, bólgueyðandi lyf og svo einn flokkur í viðbót sem ég man ekki þessa stundina, enda einn af sjúkdómum mínum mjög skert skammtímaminni.

Er ekki kominn tími að útrýma þessum gömlu leyfum af Bændaflokknum sálugum?

Davíð minn, ég þekki þig vel og þú stóðst í þeirri trú að með því að leyfa kindinni honum Halldóri að verða forsætisráðherra að við fengjum okkar kosningaloforð í gegn. Sú hefur bara ekki verið raunin og hvaða flokkur þarf alltaf að taka á sig skellinn. Nú ekki eru það Framsóknarmenn, því að þeir eru “litli flokkurinn” en ég vil minna á að litlu flokkarnir eru þeir sem stjórna mest í stjórnarsamstarfi.

Nú vil ég að þú farir að hlusta á okkur virku Sjálfstæðismennina sem erum í innra starfi flokksins, því að þú hefur gert það hingað til. Það eru komnir tveir valmöguleikar:

1. Við heimtum Heilbrigðiskerfið og förum að reka það af viti

2. Við slítum stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn og höldum nýjar kosningar (mitt álit)

Við skulum ekki taka aftur á okkur skellinn eftir klúðrið hjá Framsóknarflokknum. Leyfum honum einu sinni að þurfa að svara fyrir gjörðir sínar.

Ungur, virkur Sjálfstæðismaður hefur nú sagt sína skoðun.

Kveðja,
Abigel