Ég er búinn að fá nóg af þessum vitleysingum sem halda að þeir viti hvað frjálshyggja sé þannig að þið getið lesið þetta:

rjálshyggja í fáum orðum
Hver er siðaskoðun frjálshyggjumanna?
Sú, að einstaklingnum beri sjálfsákvörðunarréttur, sem takmarkist einungis af
sama rétti annarra einstaklinga, einstaklingurinn sé tilgangur, en ekki tæki
annarra. Frjálshyggjumenn kjósa frelsið, tortryggja valdið og hafna ofbeldinu.
Þeir telja einstaklinginn þroskast af frelsinu og ábyrgðinni sem því fylgir og
temja sér umburðarlyndi því að engin ein skoðun er sönn. Svigrúmið fyrir
fjölbreytni og grósku mannlífsins skiptir mestu. Frjálshyggjan er því
mannúðarstefna. Andstæða frjálshyggju er heildarhyggja eða félagshyggja
(sósíalismi).

Hver er skoðun frjálslyndra manna á ríkinu?
Sú, að stofnun ríkis sé ill nauðsyn. Ríkið er nauðsynlegt til að vernda frumrétt
einstaklinganna til lífs og frelsis, sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Ríkið er
jafnframt skæðasti andstæðingur þessara gilda. Með því að ríkið notar vald,
neyðir borgarana til að kosta rekstur sinn, leggur skatt á þá alla, er
eðlismunur á því og frjálsu félagi. Aðildin að ríkinu er nauðungaraðild, menn
velja ekki um það, hvort þeir eru ríkisborgarar eða ekki. Verkefni ríkisins eiga
að takmarkast við réttarverndina, önnur ríkisafskipti eru ekki réttlætanleg.
Frjálshyggjumenn kjósa réttarríkið en hafna geðþóttavaldi stjórnmálamanna.

Hver er stjórnmálaskoðun frjálshyggjumanna?
Sú, að lýðræðisskipulagið sé æskilegasta skipulag stjórnmálanna. Lýðræðið er þó
ekki markmið heldur greiðfærasta leiðin að frelsi einstaklingsins. Lýðræði er
fyrst og fremst friðsamleg aðferð til að skipta um valdsmenn. Kosningar á
nokkurra ára fresti og stjórnarskrár, sem takmarka ríkisvaldið, eru tryggingar
einstaklinganna gegn misnotkun valdsins

Hver er skoðun frjálslyndra manna á efnahagsmálum?
Sú, að hagkvæmast og réttlátast sé að láta einstaklingana sjálfa um að fullnægja
efnahagslegum þörfum sínum á markaðnum. Frjálshyggjumenn kjósa markaðskerfið,
séreignaskipulagið. Ríkið á að setja almennar, hlutlausar reglur um viðskipti
einstaklinganna og skapa umgjörð um nauðungarlaus viðskipti en ekki taka þátt í
þeim. Einstaklingar taka sjálfir efnahagslegar ákvarðanir, en ríkið ekki fyrir
þá. Þeir skiptast á vörum í stað þess að ríkið skipti vörum á milli þeirra eftir
geðþótta valdsmanna. Markaðskerfið er kerfi frjálsrar samvinnu, frjálsrar
samhjálpar og frjálsrar samkeppni.

Hver eru rök frjálshyggjumanna fyrir frelsi í efnahagsmálum?
Allir einstaklingar hafa rétt til frelsis, eins í efnahagsmálum og andlegum
efnum. Þessa siðferðilegu afstöðu velja menn eða hafna henni.
Frelsið er hagkvæmt. Það leysir úr læðingi framtak einstaklinganna. Eðlileg
hagnaðarvon þeirra knýr þá til að fullnægja þörfum hvers annars, öllum til
heilla. Frelsi í efnahagsmálum tryggir einnig frelsi í andlegum efnum.
Einstaklingarnir eru ekki frjálsir ef þeir eru algerlega öðrum háðir um afkomu
sína. Hvar á stjórnarandstaðan að fá fé ef ríkið ræður öllu fjármagninu?
Nauðsynlegt er að dreifa valdinu með mönnum til að minnka hættuna af mistökum,
sem valdsmennirnir gera vegna vanþekkingar, því að þekkingin dreifist á mennina.
Engin réttlát aðferð er til að skipta gæðum jarðar önnur en sú að láta
einstaklingana um að skiptast á þeim í frjálsum samningum.

Hverjir hafa sett fram hugmyndir í anda frjálshyggju?
Meðal þeirra eru heimspekingurinn John Locke og skáldið John Milton á 17.
öldinni, Adam Smith, Voltaire, Thomas Jefferson og James Madison á 18. öldinni,
John Stuart Mill og Herbert Spencer á 19. öldinni og Ludwig von Mises, Karl
Popper, Friedrich von Hayek og Milton Friedman á 20. öldinni. Að sjálfsögðu voru
þessir hugsuðir ekki á sama máli í einu og öllu heldur hnigu margar hugmyndir
þeirra í sömu átt.

Hver er aðgegngilegustu rit frjálslyndra manna?
Þó að frjálshyggjumenn séu ekki bókstafstrúar eru nokkur rit tengd
frjálshyggjunni órjúfanlegum böndum: Tvær ritgerðir um ríkisvaldið (Two Treaties
on Government) eftir John Locke, Auðlegð þjóðanna (An Inquire into the Nature
and Causes of the Wealth of Nations) eftir Adam Smith, Frelsið (On Liberty)
eftir John Stuart Mill og Stjórnarskrá frelsisins (The Constitution of Liberty)
og Leiðin til ánauðar (The Road to Serfdom) eftir Friedrich von Hayek.

Ofangreind samantekt er eins og fyrirsögnin bendir til hvorki tæmandi úttekt á
frjálshyggju eða algild skoðun allra frjálslyndra manna. Höfundur er því miður
óþekktur.
Everything that is really great and inspiring is created by the individual who can labour in freedom. - Albert Einstein