Í fjölmiðlastríðinu síðustu mánuðina, eftir innkomu Fréttablaðsins, þá sýnist mér að Morgunblaðið hafi glatað ansi mikið af virðingu sinni og trúverðugleika. Þessi stöðuga staðhæfing sjálfstæðismanna um að ritstjórnum fjölmiðla sé fjarstýrt af eigendum og pólitískum öflum þeim tengum, er farið að hitta mbl. illa fyrir. Blaðið virðist vera svo augljós málpípa sjálfstæðisflokksins að undrum sætir. Það veigrar sér mjög við að fjalla á gagnrýninn hátt um mál sem geta verið flokknum óþægileg. Það er að fara fram á endurskoðun laga um hringamyndun og eignaraðild á fjölmiðlum.

Þessi skyndilegi áhugi fyrir endurskoðun laga um eignarmyndum á fjölmiðlum er sérstaklega athyglisverður í ljósi þess að fyrir ekki svo margt löng gerðist mbl. aðili að félagi sem stóð að stofnun sjónvarpsfélags. Eigendur mbl. voru þannig að vinna að því að vera inni á blaða, ljósvaka og netmiðlamarkaðinum. Þessi áætlun mistókst og Árvakur dró sig í hlé og ákvað að halda sig við blaða- og netútgáfuna.

Þetta fyrra brölt mbl. á fjölmiðlamarkaðinum gerir allan málflutning þeirra mjög ótrúverðugan. Það virðist ekki vaka neitt annað fyrir blaðinu en að klekkja á skæðum keppinaut sem virðist vera að vaxa þeim yfir höfuð. Blaðið er greinilega orðið uggandi um framtíð sína og virðist sjá sér þann kost vænstann að beita fulltrúum sínum á þingi til að koma í veg fyrir hraðann vöxt keppinautarins. Auðvitað dregur þessi forsaga blaðsins úr trúverðugleika þess og hlýtur að vera nauðsynlegt að blaðið geri hreint fyrir sínum dyrum og skýri þessa stefnubreytingu, frá því að vilja vera altækt fjölmiðlafyrirtæki yfir í það að vilja setja lög sem koma í veg fyrir að fyrirtæki geti stundað fjölmiðlarekstur með öllum miðlum (blaða, ljósvaka og netmiðlum).

Það sem mér þykir þó merkilegast í orðræðu mbl. er að það er farið að taka upp messuflutning Þjóðviljans sáluga, sem var stöðugt að minna okkur á græðgi auðvaldsins. En eins og margir muna sjálfsagt þá kölluðu íslenskir kommúnistar kapítalistana sem auðvaldið. Þetta var hugtak sem fór afskaplega í taugarnar á mbl. fyrri tíma og ekki síst, þegar kommarnir voru að ásaka blaðið um að ganga erinda auðvaldsins. Já það eru ansi breyttir tímar og hin undarlegasti viðsnúningur á öllum hlutum.

M.