Enn er víst til fólk sem trúir því að algert frelsi (eða því sem næst) framtaks og fjármagns sé leiðin til velmegunar fyrir almúgann í nútímasamfélagi. Þeir sem trúðu því að alger höft væru lausnin eru sem betur fer dauðir og grafnir í málefnalegu tilliti, en enn er eftir að aka frjálshyggjupostulunum út á öskuhaug sögunnar.

Algert og óheft athafnafrelsi, án félagslegrar aðstoðar tortímir hagkerfinu. Um þetta eru óyggjandi dæmi úr sögunni. Atburðarásin er þannig:
Athafnamenn nýta fjármagn til að hefja atvinnurekstur, ráða fólk, kaupa vélar og hráefni, framleiða og selja vöru. Þeir keppa hver við annan um markaðinn, gera framleiðsluna sem hagkvæmasta og halda öllum kostnaði í lágmarki. Einhverjir verða undir í samkeppninni, verða gjaldþrota og þeir sem eftir eru kaupa upp þrotabúin og ná undir sig markaðshlutdeildinni. Þetta er óumflýjanlegt þar sem alltaf gerir einhver örlítið betur en annar. Allan tímann er reynt að halda kostnaði, og sérstaklega launakostnaði, í lágmarki, enda er það þáttur sem hægt er að hafa áhrif á fremur en td. hráefniskostnað. Vinnandi fólk, sem er vel að merkja sama fólkið og kaupir vörurnar, hefur því sífellt minna á milli handanna, því hin ósigrandi rök hinnar óheftu samkeppni þrýsta þeim niður. Að því kemur að kaupmáttur almennings er orðinn svo rýr að vörur hætta að seljast. Fyrst verður hrun í þeim vöruflokkum sem síst teljast nauðsynjavörur. Fólk eyðir peningum sínum auðvitað fyrst í mat, húsaskjól og föt, síðan kannski í húsgögn og hreinlætisvörur, en síðast í, segjum, leikföng og afþreyingarvörur. Þar verður söluhrun fyrst. Framleiðendur bregðast við með því að lækka verðið og draga enn úr kostnaði, en það kemur fyrir ekki. Fólk kaupir ekki óþarfa hluti á neinu verði sem gengur upp til langframa, meðan það á rétt fyrir nauðsynjum. Framleiðendur í þessum geira verða gjaldþrota fyrr eða síðar, og starfsfólk þeirra missir vinnuna. Það fólk á nú ekki lengur til hnífs og skeiðar. Það á ekki kost á annarri vinnu, því kaupgeta er þegar orðin svo aðþrengd að hvergi er svigrúm til að færa út kvíarnar. Það sem meira er, hluti markaðarins fyrir nauðsynjavörur er nú horfinn, þar sem þetta atvinnulausa fólk á nú ekki einu sinni fyrir mat. Framleiðendur nauðsynjavara eiga nú í vök að verjast, þar sem samkeppnin er þegar búin að knýja þá til að reka starfsemi sína með ítrustu útsjónarsemi og ekkert svigrúm er til að mæta áföllum. Þeir verða því líka gjaldþrota og svo koll af kolli þar til efnahagslífið hefur stöðvast.
Og þetta hefur gerst, þótt margir kjósi helst að gleyma því. Það sem kemur í veg fyrir þessa atburðarás á Íslandi (og víðar) í dag er inngrip hins opinbera í atvinnulífið með lagasetningum, og félagslega kerfið. Þar er átt við lögbundinn samningsrétt stéttarfélaga, lög um hollustuhætti á vinnustöðum, lög um lágmarkslaun, atvinnuleysisbætur osfrv.