Nýlega sat ég heima hjá móður minni og við vorum á spjallinu þegar hún tilkynnti mér að henni þætti ég vera að kasta perlum fyrir svín. Fyrst skildi ég ekki alveg hvað hún var að fara, en eftir að hún hafði staðhæft að ég væri svo skýr og klár strákur (hennar orð, ekki mín, enda er hún mamma), fór það að renna upp fyrir mér að hún var að tala um harðar skoðanir mínar í fíkniefnamálum.

Hún spurði sig að því hvers vegna ég væri ekki að berjast fyrir einhverju merkilegra heldur en þessu. Fleiri orð get ég ekki lagt í hennar munn í þessari grein, en ég skil viðhorfið vel. Að eyða ómældum tíma og ómældri orku í það að rannsaka leiðir til þess að hasshausar úti í bæ geti fengið afsökun fyrir eigin neyslu, virðist í fljótu bragði ekki vera mjög merkilegt, en þetta geri ég, og hef gert um árabil.

Það er fyndin saga að segja frá því hvernig það kom til að ég fór að styðja lögleiðingu kannabisefna. Vinur minn var orðinn helvíti harður kókaínhaus svo að ég fór að kynna mér hin ýmsu vímuefni til þess að athuga hvort ég ætti að eyða tíma í að reyna að hjálpa honum. Þetta var seinnihluta 1999, og síðan þá, því meira sem ég les og því meira sem ég pæli í því, styrkist ég í andstæðu við þá trú sem ég hafði upprunalega. Upprunalega nefnilega var ég mjög harður á móti lögleiðingu, og ég man ennþá eftir því þegar einhver kom í viðtal við Egil Helgason í Silfri Egils, að ég hugsaði með mér að viðmælandinn hlyti að vera vangefinn, að tala um lögleiðingu fíkniefna sem raunverulegan kost.

En burtséð frá skoðunum mínum, þá langar mig til þess að útskýra hvers vegna nákvæmlega ég tel þessa umræðu ekki vera svín, þó að ég vissulega hendi perlum í hana. Þetta er mikilvæg umræða, og mikilvægur hlutur sem um er rætt.

Fíkniefnavandamálið hefur verið rísandi í hinum gjörvalla vestræna heimi í dágóðan tíma núna. Það virðist vera alveg sama hvað stjórnir gera, vandamálið verður bara verra. Ég tel það vera grundvallarmisskilning af hálfu alþýðunnar gagnvart fíkniefnum, sem gerir þetta að verkum.

Það er nefnilega einhvern veginn þannig, að langflestir, ef ekki hreinlega allir, sem eru á móti lögleiðingu fíkniefna, hafa nákvæmlega engan áhuga á umræðunni. Þessu fólki finnst umræðan oft leiðinleg, ómerkileg og upplifir hana einmitt, sem fyrr er nefnt, sem aðferð dópista til þess að réttlæta eigin neyslu.

En hvernig á fólk að leysa vandamál, sem þetta sama fólk nennir ekki einu sinni að ræða? Hvernig á að fræða fólk, upplýsa þjóðfélagið um fíkniefni almennt, þegar umræðan sjálf er fordæmd?

Við erum að tala um fíkniefni. Lögleiðing snýst ekki um að réttlæta eitt eða neitt, og hún snýst í mínu hjarta ekki einu sinni um rétt fólks til þess að t.d. reykja hass ef því andskotans sýnist (þó að það sé reyndar líka viðhorf mitt, það er bara ekkert aðalatriðið). Þetta snýst um að gera fíklum kleyft að díla við sín mál betur.

Það er almennt viðhorf að fíklar leiti í efnin, þegar allt kemur til alls, til þess að flýja veruleikann. Þetta aðhyllist ég, og tel vera höfuðástæðu fíknarinnar… það að lífið er bara svo ónýtt nema það sé kryddað allhressilega með einhverri vímu, hvort sem það er áfengi, kannabisefni, alsæla eða hvaðeina. Þannig að þegar einhver, sem bersýnilega er að forðast raunveruleikann, er tekinn og sektaður, eða jafnvel lokaður inni í einhvern tíma? Er það fýsilegur veruleiki til þess að lifa í? Ef ég set mig í spor fíkilsins, tryggir það einfaldlega ennþá harðari neyslu, til þess að forðast ennþá harðari veruleika.

Það er löngu orðið tímabært að fólk líti á fíkn sem þann viðurkennda sjúkdóm sem það er, frekar en glæp. Sá sem neytir fíkniefna án vandkvæða, það þarf ekkert að ala hann upp. Sá sem neytir fíkniefna og lendir í vandræðum út frá því, á við vandamál að stríða, og honum ber að hjálpa, ekki refsa.

Ég hef, eins og margir Íslendingar, talsverða reynslu af því að umgangast kannabisefni, og vitið þið hverju ég tek eftir? Að þegar hasshaus lendir í vandræðum, það sem hann gerir EKKI, er að hringja í lögregluna þegar eitthvað bjátar á, jafnvel ekki einu sinni lækni eða sjúkrabíl. Þeir sem eiga nefnilega í raunverulegum vandamálum með neyslu sína, upplifir sig (skiljanlega) ekki sem hluta af samfélaginu sem við þykjumst síðan vera svo stolt af. Þetta fólk lifir án lögreglu, án heilbrigðisþjónustu, og kannabisneytandi með andleg vandamál sem fer til sálfræðings eða læknis, fullyrði ég að er undantekningalaust sagt að kannabisefnin séu rót alls ills í viðkomandi lífi.

En víman er ekki vandamálið, víman er lausnin. Tímabundin lausn fíkilsins á raunverulegu vandamálunum sem fara ekki neitt þó að víman fari. Þetta er eins og að segja að til þess að laga beinbrot, þurfi fyrst að taka viðkomandi af öllum deyfilyfjum. Og það er það sem fíkn er; að sækjast í deyfilyfin, þ.e. vímuefnin. Misnotkun á þessum efnum þýðir auðvitað að viðkomandi missir tak á því að geta leyst hin raunverulegu vandamál, en það þýðir samt sem áður ekki að það sé ekki hægt að leysa þau meðfram fíkninni, sem er í rauninni aðskilið vandamál. Ef ég á við vandamál að stríða og ég fer til sálfræðings, passa bara að segja honum alls ekki að ég neyti ólöglegra vímuefna, er alveg jafn líklegt að viðkomandi sálfræðingur hjálpi mér og ef ég væri alltaf edrú. Það eru fordómar af hálsu þjóðfélagsins, að um leið og ólögleg fíkniefni komi upp, hljóti þau að vera rót alls ills, þegar rótin er miklu duldari, og fíkniefnin gera ekkert í dag nema að breiða yfir hana með nýju og aðskildu vandamáli, sem er fíknin.

Ég þekki, eins og margir, endalaust marga kannabis- og áfengisneytendur sem eiga ekki við nein sjáanleg vandamál að stríða. Ég veit meira að segja um mann sem þakkaði kannabisefnum fyrir það að geta unnið sig upp úr þunglyndi! Ég veit ekkert hvort ég eigi að trúa honum, en hann er allavega hættur að reykja í dag, og hann fullyrðir þetta. Hann hefur enga ástæðu til að ljúga, enda hættur að reykja, svo að það er engin neysla eftir til að réttlæta. Það er auðvitað einstaklingsbundið, en það er líka punkturinn.

Þetta ER nefnilega einstaklingsbundið! Það þýðir ekkert að taka vímuefnaneytanda og setja hann í ákveðinn flokk og senda hann í rútu niður á Litla Hraun. Það hjálpar engum, hvorki núverandi neytanda, né börnunum ykkar heilögu sem eiga það á hættu að verða neytendur seinna meir (og reyndar er skuggalega stór hluti þeirra sem mun verða það).

Þetta snýst ekki bara um minn sjálfsagða helvítis rétt til þess að haga MÍNU lífi eins og MÉR sýnist. Þetta snýst líka svolítið um hvað er mér fyrir bestu, og þó að vímuefni séu að öllu jöfnu slæm, þá er ekki þar með sagt að hvaða lækning sem er, sé við hæfi.

Sú lækning sem við notum í dag, er nefnilega byggð á verulegri andstyggð flestra jafnvel á umræðunni sjálfri, hvað þá hugmyndum í átt að lækningu. Fólk vill ekkert heyra um þetta. Það er svo miklu auðveldara að segja bara að dóp sé slæmt og þar með sé málið bara komið á hreint.

Svo að ég spyr; hvers vegna virkar þetta ekki? Við herðum refsingar, og hvað gerist? Vandamálið verður ennþá verra. Svo að við förum að refsa fleirum, og hvað gerist? Vandamálið verður ennþá verra. Það er ekki nóg að líta á það hversu stórt hlutfall þessa eða hins hóps er að neyta fíkniefna, það þarf líka að athuga hversu slæmt ástandið er hjá þessari sömu prósentu. Það er ákveðið slæmt að vera kannabisneytandi, en það er ENNÞÁ verra að vera kannabisneytandi í þjóðfélagi sem bókstaflega útilokar mann, og leyfir manni aldrei að vera memm, fyrr en maður er kominn í tísku.

Ég tel stærsta þátt óæskilegra áhrifa fíkniefna, vera félagslegan. Það er þjóðfélagið sem nærir stóran hluta þeirra skelfinga, sem fíkniefna geta valdið. Eins og áhrif neyslunnar sé ekki næg refsing fyrir þetta lið.

Svo að ég afneita því, að ég, og þeir sem eru sammála mér (sem fer sem betur fer ört fjölgandi), séu að henda perlum fyrir svín. Fíkniefni á Íslandi ERU stórt vandamál, og það ÞARF að laga þetta. Og það verður ekki gert með því að gera fólk að glæpamönnum, það verður gert með því að bjóða því hjálp. Ekki gistingu í fangaklefa eða sekt.