Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið rætt um græðgi og auðsöfnun nokkura einstaklinga í íslensku samfélagi. Sumum virðist sem auður landsins sé að safnast á örfáar hendur og eftir situr almenningur með tóma buddu og lítið valfrelsi - kúgaður af moldríkri og nýríkri hástétt. Menn tala um að setja lög, herða reglur og auka eftirlit. Ríkisvaldið verði að tryggja að nokkrir menn geti ekki auðgast “of mikið”, og þá “á kostnað” almennings. Vitaskuld er þetta fráleitt.

Fyrir ekki svo mörgum árum var Íslandi nánast skipt í tvennt eftir flokkslínum. Kolkrabbinn svokallaði, og Smokkfiskurinn, höfðu tögl og haldir í öllum stærstu fyrirtækjum landsins og engin leið var óflokksbundinn mann að komast til æðstu metorða. Fyrirtæki voru rekin með hagsmuni valdhafa í huga en ekki hluthafa. Slíku hugarfari fylgir sóun og spilling og lítið er við því að gera á meðan ríkisvaldið heldur verndarhendi yfir öllu saman.

Nú er öldin önnur. Ísland hefur opnast gríðarlega fyrir erlendu fjármagni, og íslensk fyrirtæki keppa á alþjóðamælikvarða við þúsund sinnum stærri fyrirtæki í Evrópu, í Bandaríkjunum og allt til Kína og Japan. Nú bjóðast húsnæðislán í evrum, á Evrópuvöxtum, hægt er að geyma pening í evrópskum bönkum, taka lán í dollurum og kaupa og selja gjaldmiðla að vild. Íslensk fyrirtæki eru ekki lengur fær um að skipta völdum á milli sín innlendis því þá drepast þau hreinlega. Ríkisfyrirtækin ein njóta verndar hins opinbera.

Þetta er jákvæð þróun sem kemur íslenskum almenningi sér mjög vel. Í stað þess að velja Sjálfstæðisflokkinn og styðja Kolkrabbann á fjögurra ára fresti veljum við dags daglega að skipta við það fyrirtæki sem býður best. Í stað þess að kjósa Framsóknarflokkinn og velja Smokkfiskinn ákveðum við frá einni mínútu til annars að draga upp debetkortin og versla þar sem kjörin bjóðast best. Í raun má segja að með því að losa um tök ríkisins á íslensku efnahagslífi þá fjölgum við atkvæðum okkar úr einu á fjögurra ára fresti í fjórum sinnum 365 atkvæði á fjórum árum. Betra lýðræði er vart hægt að hugsa sér.

Næstu skref í þessu samhengi eiga ekki að vera auknar opinberar reglugerðir og haftir, og ekki aukið eftirlit og aukin ríkisafskipti, heldur áframhaldandi rýrnun á ríkisvaldinu og áframhaldandi opnun hins íslenska hagkerfis. Við erum frjáls til að velja, og eigum ekki að láta neinn telja okkur trú um neitt annað. Valið verður meira og meira eftir því sem ríkisafskipti eru minni og minni. Hlutverk hins opinbera er að standa vörð um frelsi okkar til athafna og eignarréttinn, og verja okkur fyrir ofbeldi og svikum í samningum. Ef til vill á ríkisvaldið einnig að tryggja að þeir sem minnst mega sín eigi sér viðbjargar von í hröðu samfélagi, þótt það sinni því hlutverki sýnilega mjög illa. En lengra þarf það ekki að ganga.

Frelsi er gott. Afskipti af sjálfráða geðheilum einstaklingum eru vond. Gildir þá einu hvort árangurstengd laun bankastjóra eru tíföld eða hundraðföld laun verkamannsins.