Var að lesa grein eftir Björgvin G. Sigurðsson þingmann Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu í dag 3. jan. 2003 sem var titluð “Sjálfstæðisflokkurinn leiðir Framsókn til valda”.

Þingmaðurinn er greinilega enginn aðdáandi núverandi ríkisstjórnar en það sem vakti athygli mína var afstaða hans til bandarískra stjórnmála. Eftir mörg orð um lágkúrulegt og andstyggilegt árásarstríð Bandaríkjanna á Írak (reyndar stutt af skoðanabræðrum Samfylkingarmanna í Bretlandi) lýsir hann þeirri skoðun að Bush sé einhver mesta ógn sem nú steðji að mannkyninu.

Helsta von mannkyns sé að Demokratar nái völdum í Hvíta húsinu og óskar Björgvin eftir því að Hillary Clinton bjóði sig fram til forseta vegna þess að hún sé mun líklegri til að vinna en Howard Dean.

Það er bara eitt sem ég skil ekki. Hillary Clinton greiddi atkvæði með stríðinu í Írak, hefur stutt það óhikað síðan það hófst, fór þangað um daginn til að hitta bandaríska hermenn og hefur helst kvartað yfir því að Bush virðist ætlað að draga herinn of fljótt út úr Írak til að líta betur út fyrir forsetakosningarnar. Hefði þá verið allt í lagi með Íraksstríðið ef Hillary Clinton hefði verið forseti en ekki Bush?