Hér á eftir eru tvær greinar sem birtust á slóðinn http://www.maddaman.is vefriti SUF(Sambands Ungra Framsóknarmanna) í tengslum við nýja reglugerð menntamálaráðherra um álagningu STEF-gjalda á geislaskrifar, skrifanlega geisladiska og annað slíkt.


26.2.01

“Vörur sem geta brotið lög”

Í morgun vakti Mbl.is athygli á nýlegri reglugerð frá menntamálaráðuneyti. Reglugerðin fjallar um gjald sem lagt skal á skrifanlega geisladiska og geislaskrifara. Til þess að innheimta höfundarréttargjöld.

Það má réttlæta þetta á einhvern hátt með því að sennilegast notar fjöldi fólks þennan búnað til að taka ólögleg afrit af gögnum annarra. Hinsvegar eru mjög margir sem nota skrifanlega geisladiska til að geyma ljósmyndir og verkefnin sín, m.ö.o. öll skjöl sem á að geyma en óþarfi er nota pláss á hörðum diskum tölvanna. Hvers vegna á fólk að greiða höfundarréttargjöld vegna þess að það vill geyma sín eigin verk.

Það hljómar furðulega að taka sérstakt gjald af skrifanlegum geisladiskum, sérstaklega þar sem algengt verð á diskum er 70 – 150 krónur. Það er því mikil hækkun ef leggja á 35-100 krónur á hvern disk. Hvers vegna eru þá ljósritunarvélar og myndavélar undanskildar, það er hægt að taka myndir af eignum sem eru “höfundaverndaðar”. Það er hægt að ljósrita heilu bækurnar en ekkert er lagt á ljósritunarpappír vegna þessarar reglugerðar.

Ef þetta er svona fallegt og rétt hvers vegna ætti þá ekki að taka gjöld af þeim bifreiðum sem komast yfir 110km/klst eða geta keyrt utanvega. Þetta er bannað og hvers vegna að framleiða eða flytja inn tæki sem geta brotið lög?

Væri þá ekki rétt að innheimta sektargreiðslur af öllum bílum sem geta keyrt hratt, því þeir sem eiga svoleiðis bíla hljóta að brjóta lög einhvern tímann. Þetta gæti verið tekjumöguleiki fyrir ríkissjóð.

Maddömunni finnst þetta einstaklega athyglisverð reglugerð og verður að viðurkenna að grunur hennar hallast af því að EES-samningurinn eigi einhvern þátt í þessu. Jæja, það hlaut að koma að því að eitthvað vont kæmi frá samningnum eins og margir spáðu á sínum tíma.

BÁÓ



28.2.01

Gjaldtaka af geisladiskum og lýðræðið

Barátta netverja gegn gjaldtöku höfundarréttargjalds af tölvum, geislaskrifurum og skrifanlegum geisladiskum skv. nýlegri reglugerð menntamálaráðherra er ágætt dæmi um þá möguleika sem netið gefur þeim sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Með reglugerð nr. 125/2001 mælti menntamálaráðherra fyrir um að innheimta skuli höfundarréttargjöld við innflutning á tölvum, geislaskrifurum og skrifanlegum geisladiskum. Raunar mun Björn Bjarnason hafa undirritað reglugerðina þann 29. janúar sl. en það er fyrst á allra síðustu dögum sem öldur óánægju hafa risið gegn þessari gjaldtöku.

Netverjar leiða baráttuna gegn þessari gjaldheimtu og hefur félagsskapur þeirra hafið undirskriftasöfnun til þess að mótmæla reglugerðinni. Undirskriftasöfnunin fer fram á vefnum og er ljóst að þetta mál hefur vakið viðbrögð meðal margra.

Ef gluggað er í undirskriftalistann má sjá að Björn Bjarnason menntamálaráðherra hefur sjálfur skrifað undir. Það þarf þó líklega ekki að koma á óvart ef haft er í huga að hann hefur í gegnum tíðina reynst “bestur bandamanna íslensks þekkingariðnaðar í stjórnmálaheiminum.” Andúð söngvara bresku hljómsveitarinnar Queen kemur meira á óvart. En kannski er Freddie Mercury þrátt fyrir allt á lífi og best mætti trúa því að hann byggi með sjálfum Elvis Presley á Raufarhöfn þar sem hann dundar sér við að afrita gamla Queen diska í frítíma sínum. Ef sú kenning er rétt þarf engan að undra þótt Freddie gamli sé ekki alls kostar sáttur við þessa gjaldtöku.

Gallinn við undirskriftasafnanir er alþekktur. Þær eru fremur slæm vísbending um almenningsálitið þar sem erfitt getur reynst að sannreyna hversu margir hafi í raun tekið þátt í þeim. Hins vegar getur undirskriftasöfnun verið ágæt leið til að vekja athygli á tilteknum málstað og undirskriftarsöfnun á vefnum er í senn ódýr og þægilegur kostur.

Þetta leiðir hugann að þeim tækifærum sem Netið gefur áhugafólki um stjórnmál. Netið er ódýr miðill með tiltölulega mikla útbreiðslu. Þeir sem ekki hafa greiðan aðgang að hinum hefðbundnu fjölmiðlum geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri í gegnum Netið. En Netið er líka þægileg aðferð til þess að virkja fjöldann. Þannig er herferð Netverja gegn þessari reglugerð menntamálaráðherra ágætt dæmi um velheppnaða herferð sem alfarið er skipulögð á veraldarvefnum.

FÞB