Ég var að lesa í Morgunblaðinu um hjón sem voru dæmd til fangelsisvistar og sektar fyrir vændi til viðurværis, sem kunnugir vita að er ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum.

Það sem er merkilegt, er að vændiskonan, fékk 3 mánaða fangelsi og 500.000 króna sekt. Fann dómurinn henni ekkert til málsbóta, ekki fíkniefnaneyslu, örbirgð eða þvíumlíkt. Maður hennar var dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir það sem er orðað mjög loðið í greininni, sem var að hvetja hana áfram til vændis. Mjög greinilegt er af öllu málinu eins og það birtist, að konan var ekki neydd út í þetta vændi, og reyndar hélt hún uppi þeirri málsvörn að þessi lög stönguðust á við nútímaviðhorf og væru úreld. Merkilegt að hlusta á fórnarlamb vændis tala svona.

Og mér er spurn, hvernig hefur réttlætinu verið þjónað? Þegar maður spyr meðalmann út í svona hugleiðingar, þá er yfirleitt svarað með móðursýkiskasti yfir því hvað vændi sé skelfilegt og að allar mellur séu bara í því vegna dóps eða misnotkunar í æsku eða þvíumlíkt. Slíkt var ekki að finna í þessum dómi, samkvæmt úrskurði héraðsdóms.

Er vændi svo skelfilegt, að það beri að refsa þeim sem lenda í því? Meira að segja móðursjúklingarnir í Vinstri Grænum eru sammála mér í því að vændiskonum ber ekki að refsa, en þeir vilja aftur á móti refsa kúnnanum, eins og þeir gera í paradísinni Svíþjóð.

Og þá spyr ég; hér er vændiskonan greinilega viljug, og hvar er sökudólgurinn? Kúnninn? Hann veit ekki betur en að hún sé viljug, og maður sér ekki betur en að svo sé í þessu tilfelli, þannig að hvers vegna að refsa honum? Ber hún, sem fullorðin manneskja, ekki einu sinni í “mildandi aðstöðum” þ.e. örbirgð (enda miklir peningar í vændi, greinilega) eða fíkniefnaneyslu, ábyrgð á sjálfri sér? Karlmaður sem selur sig, ber hann ekki ábyrgð á því sjálfur? Eða er sjálfsábyrgð bara fyrir karlmenn, og jafnréttið bara fyrir konur?

Þetta er nákvæmlega sama sagan og með bannið á kannabisefnum, svo að ég geri nú aðeins meira til að pirra siðapostulana. Þar er tekið móðursýkiskast yfir því hvað kannabisefni eru skelfileg og að hinn dæmigerði hasshaus sé svona eða hinsegin (þó að fólk virðist helst hafa þær heimildir úr bandarískum bíómyndum, og þykja þær þá allt í einu svakalega áreiðanlegar), og þ.a.l. beri að banna kannabisefni; en gleymist aftur hverjum á að refsa. Og auðvitað lendir fórnarlamb fíknarinnar sjálft í því. Hvort sem hann er fíkill eður ei, á hann ekki skilið sektir og hvað þá fangelsi. Og hvort sem vændiskonan er viljug eður ei, á hún einnig hvorugt skilið. Í þessu tiltekna vændismáli sé ég ennfremur engan veginn hvað maður hennar á að hafa gert rangt, því að enginn er að hrópa það út að hann hafi neytt hana til eins eða neins, eingöngu hvatt hana áfram til þeirra verka, sem þeim þótti bersýnilega fullkomlega í þeirra rétti að gera.

En það er víst ekki nógu gott fyrir alþýðuna. Fólk á jú að vera allt nákvæmlega eins, og ef fólk er ósammála okkur meirihlutanum í því hvernig það á að lifa sínu lífi, þá þurfum við að NEYÐA fólk til þess að lifa eins og við viljum að það lifi. Ef annað fólk hefur aðrar siðferðisskoðanir en við, verðum við að neyða fólk, bókstaflega með valdi, til þess að vera sammála okkur. Hvar er Stalín þegar maður þarfnast hans?

Fólk þarf að vaxa upp úr þessari firru og heimsku, að banna einstaklingsvandamál. Kannabismisnotkun og vændi eru félagsleg vandamál, og fólki sem á í vandræðum, ber að hjálpa, ekki refsa.

Þetta er ekki bara barnaskapur og fáfræði, heldur hreinlega heimska. Fólk sem er í stjórnmálum á að þekkja málin nógu vel, til þess að sjá í gegnum þessa firru.

Við svarendur vil ég segja; sleppið grátsögunum um það hvað vændi og kannabisefni eru hræðileg, við skulum alveg gefa okkur (for the sake of argument) að svo sé. En það eru þunglyndi og atvinnuleysi líka, ekki tökum við þunglynda og sektum þá fyrir að vera þunglyndir. Ég vildi reyndar að ég gæti sagt hið sama um atvinnulausa, en viljinn til þess að hjálpa er á Íslandi mun minni en til þess að refsa og hefna. Að kalla kannabisefni og vændi svakalegt vandamál, og gera síðan í því að setja þetta fólk í ENNÞÁ meiri vandræði, er í versta falli heimska, og í skásta falli hræsni.