Til að geta lesið þessa grein og skilið þarf maður að skilja tvær grundvallarkenningar frjálshyggjunnar.

1. Í viðskiptum hagnast báðir aðilar. Því miður er það mjög útbreiddur misskilningur að í viðskiptum hagnist söluaðili en kaupandinn tapi. Þetta er alrangt. Það er vissulega rétt að peningar eru fluttir frá kaupanda til söluaðila, en hvað eru peningar? Peningar eru í raun tilkomnir til að auðvelda öll vöruskipti, peningar eru vara. Það sem gerir peninga verðmæta er að allir vilja eiga þá og nóg af þeim. Þessi staðreynd gerir þá að góðri vöru til að nota almennt til vöruskipta, alveg eins og góðmálmar í gamla daga.

2. Einstaklingar eiga að hafa frelsi til að sinna sínum hugðarefnum svo framarlega sem þeir skaða engan annan. Þetta felur í sér að fólk má drekka djús, borða kex, dópa, selja sig, stunda jóga, hita kaffi, heimsækja ömmu o.s.frv. En um leið og A hlýtur skaða af gjörðum B, er B að níðast á frelsi A. Frelsis skerðing er ýmis konar. Fólk á að geta ráðstafað fjármunum sínum eins og það vill og þar af leiðandi er skattheimta til að mynda frelsis skerðing, einnig má nefna ofbeldi.

Hvernig er hægt að minnka umsvifin?

Til að byrja með ætti ríkið að selja öll sín fyrirtæki. Þá er ég að tala um til dæmis Landsímann, Landspítalann, Landsvirkjun og Hagaskóla. Mikilvægast er að selja heilbrigðisstofnanirnar enda er heilbrigðisráðuneytið með um 40% af ríkiskassanum í höndunum. Þetta er að sjálfsögðu hægt að gera smám saman til að leyfa hagkerfinu að aðlagast. Góð byrjun væri að rýmka fyrir einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu, bjóða út rekstur einstakra deilda spítalanna eða spítalanna í heild og svo að lokum að selja þá.

Ríkið hefur einnig ýmsar undarlegar stofnanir á sínum snærum til að mynda mannanafnanefnd. Nefnd sem að ákveður hver má heita hvað og hvaða nöfn þykja góð og falleg. Þetta kostar okkur skattgreiðendur nokkrar milljónir á ári, því er ver.

Virðisaukaskattur er fyrirbæri sem er með öllu óréttlætanlegt. Virðisaukaskattur rekur fleyg á milli seljenda og neytenda og skekkir framboðs/eftirspurnarkúrfuna þ.e.a.s. vörur eru seldar dýrar en jafnvægisverð segir til um og er því umframframboð á markaði, væntanlega.

Tollar ýmis konar og framleiðslustyrkir eru leiðinda fyrirbæri. Auðvitað ætti fólk að mega versla þær vörur sem það vill helst, auk þess myndi þetta bæta Íslenskan landbúnað en ekki skemma hann. Tel ég að mörgum yrði brugðið ef þeir vissu hvað þeir eru raunverulega að borga fyrir mjólkur fernu, en ég hef heyrt að ef maður bæti 100 krónum við lítraverð þá sé maður u.þ.b. kominn með rétt verð. Þegar heilbrigð samkeppni er á markaði þurfa fyrirtæki virkilega að leggja á sig til að heilla viðskiptavinina. Þeir þurfa að bjóða vörur sem eru betri, ódýrari eða betri og ódýrari en vörur keppinauta þeirra. Þetta veldur því að fyllstu hagkvæmni í rekstri verður alltaf að gæta, þetta leiðir síðan af sér betri nýtingu framleiðsluþátta landsins sem leiðir aftur af sér batnandi lífskjör.

Almenn skattprósenta þarf að lækka verulega til að virða einstaklingsfrelsið og eignarréttinn. Áður hefur verið bent á þetta en ég geri það aftur, við 38% skattprósentu er maður 38% þræll. Því þræll er sá maður sem hlýtur ekki laun fyrir vinnu sína eða fær ekki að ráðstafa vinnulaunum sínum eins og hann vill. Auðvelt er að lækka þessa prósentu, yfirvöld verða bara að sýna meira aðhald. Skera niður í hinum og þessum gæluverkefnum, svo sem kræklingaeldi og uppbyggingu á kvikmyndasafni.

Mikilvægt er að minnka umsvif ríkisins því fólkið sjálft veit hvað er því fyrir bestu, ekki nefndir út í bæ. Ég veit best hvort mig langar í snúð eða kleinu, kvikmyndasafn eða kræklingaeldi.