Einhver útbreiddasti misskilningur, að mínu viti, þeirra sem tjá sig í fjölmiðlum er að efnahags- og tækniframfarir iðnvæddra þjóða séu komnar til vegna þess að þær hafi reitt sig á samkeppni og svokallaða frjálshyggju. Margir virðast þannig telja að sé allt í einkaeign verði hámarkságóði og velsæld í samfélaginu. Það athyglisverðasta er kanski að þeir sem eru hvað mest sannfærðir um þetta virðast ekki einu sinni gera tilraun til að færa sönnur á mál sitt, telja þetta kanski svo augljós sannindi. Þeir sem þó reyna benda á dæmin Bandaríkin, Singapúr, Suður-Kóreu, Japan og Þýskaland. Þá er ekki nema von að maður spyrji hvort þessar þjóðir hafi raunverulega fylgt hinum heilögu lögmálum frjálsrar samkeppni, eða kanski fylgt þeim frekar en einhver meðalþjóð heimsins. Þá kemur nokkuð undarlegt í ljós: Í fáum ríkjum hefur ríkið verið jafn stórt og í þessum. Japan, Singapúr og Suður-Kóreu var stýrt af herstjórnum lengi eftir seinna stríð. Fyrirtækin unnu að því göfuga markmiði að gera efnahag landsins sterkan. Hin geisilega miðstýring sem einkennir þessi ríki er sannarlega ekki skólabókadæmi um frjálshyggju.
En hvað með Bandaríkin, höfuðvígi auðvaldshyggjunnar. Eru ekki tækni-framfarir þaðan frjálsri samkeppni að þakka? Þegar tækniframfarir eru nefndar dettur kanski flestum í hug tækni eins og tölvur, síminn, internetið, örbylgjuofnar og flugvélar. Eins og allar uppfinningar eru þær upprunnar úr hugum einstaklinga. En það er ekki nóg að láta sér detta eitthvað í hug, einhvern veginn þarf að þróa hugmyndina til að gera hana að veruleika (eins og Pascal þekkti svo vel) og hverjir stóðu að þróun framangreindrar tækni? Síminn var þróaður af ríkisstyrktu einokunarfyrirtæki og hin voru að mestu þróuð og fjármögnuð af hernum. Herinn er ríkisfyrirtæki og telst því ekki fylgja lögmálum frjálshyggjunnar. Reyndar er herinn í Bandaríkjunum það risavaxinn að öll umsvif flestra annarra landa í hermálum ná ekki að vera hálfdrættingur á við hann. Hvaða lönd fylgja þá raunverulega lögmálum frjálshyggjunnar. Hvar eru öll fyrirtæki í einkaeign, eða í eigu hluthafa? Það er erfitt að henda reiður á því enda verður þá að finna ríki þar sem allt heilbrigðiskerfið, menntakerfið, herinn (ef hann er til staðar), orkuveita og vatnsveita svo eitthvað sé nefnt sé í einkaeign. Ríki sem svo er statt um hafa nafn í nútímanum; þróunarríki. Reyndar er tæpast til algjört frjálshyggjuríki en ríki þriðja heimsins komast næst því.
En hvað með Þýskaland. Þýskaland reis, eins og Japan, úr öskustónni sem seinni heimsstyrjöld skildi eftir sig. Þar kemur í ljós að Þýskaland er velferðarríki og fylgir ekki ósvipuðu kerfi og norðurlöndin, en það kerfi kallast sósíaldemókratismi (félagshyggjulýðræði er hugsanleg þýðing). Þegnar borga í sameiginlegan sjóð sem notaður er til að reka heilbrigðiskerfi, menntakerfi og jafna lífskjör svo eitthvað sé nefnt. Þessi sjóður er ekki í einkaeign og auðurinn í honum er ekki (eða ætti ekki að vera) valdatæki fyrir einstaklinga. Þetta er kanski grundvallarhugmynd sósíalismans og samkvæmt mínu viti eru norður evrópsku velferðarríkin sósíalísk ríki. Algengast er að tala um að þessi ríki noti eitthvað sem kallast blandað hagkerfi, þar sem kapítalismi leyfist innan einhverra marka, en í raun er ekkert í sósíalismanum sem bannar einkaeign svo að það er rík ástæða til að efast um að norðurlöndin séu ekki mótuð af hreinum sósíalisma.
Ef svo ólíklega vill til að einhver hafi lesið þessa grein hingað til heldur sá eflaust að ég sé talsmaður forræðishyggju og miðstjórnar, en það er fjarri lagi. Ég gæti alveg talist róttækur frjálslyndur vinstrimaður. Það sem mér sýnist vera helsta vandamálið við hagsstjórnir flestra ríkja er að þær byggja ekki á því grundvallar-markmiði að allri þjóðinni farnist sem best, heldur er ofuráhersla lögð á að engin takmörk séu fyrir því hversu ríkur eða valdamikill einstaklingurinn getur orðið. Slíkt hlýtur að leiða af sér sívaxandi ofurvald hinna ríku sem verða hlutfallslega færri en almenningur Auðvald getur aldrei verið í þágu allra íbúanna, því vald auðarins hlýtur að rýrna eftir því sem meira hlutfall íbúanna ræður yfir honum. Það góða við almenningsfyrirtæki eins og Háskólasjúkrahúsið er að forgangsverkefni hans er ætíð að veita þeim sem eiga hann (allir íbúar ríkisins) sem besta þjónustu á sem lægstu verði. Í hreinu auðvaldssamfélagi hljóta eigendur einkarekins spítala að hafa gróðann að aðalmarkmiði. Gæði þjónustu og lágt verð eru ekki lengur höfðumarkið í sjálfu sér, heldur mögulega hentugar aðferðir til að fá hámarksgróða til eigendanna og kanski til að nota sem slagorð í auglýsingaherferð. Ef allir verða jafnir að völdum og auð hættir auðvaldssamfélagið að verða til, með öðrum orðum byggir sjálf tilvist þess á misskiptingu auðar og valda.