Þrælahald á Íslandi.


Launakjör starfsmanna við Kárahnjúka hafa að undanförnu verið til umræðu.
Innlend verkalýðsfélög hafa óskað eftir upplýsingum um kaup og kjör erlendra starfsmanna Impregilo. Fyrirtækið hefur undanfarið starfað mikið í svokölluðum þróunarlöndum, en þar eru laun slík að klukkutíma laun íslensks launamanns þættu þokkaleg viku eða jafnvel mánaðarlaun. Frá þessum gósenlöndum launagreiðandans hverfur Impregilo til Íslands, þar sem laun og aðbúnaður verkalýðs er með því mesta og besta sem gerist. Impregilo er því nokkur vorkunn að lenda svo hér í vandræðum með að útskýra hvernig það má vera að launagreiðslur fyrirtækisins hér duga ekki hinum erlendu starfsmönnum þess nema rétt til kaupa á ullarhúfum – með því að skrapa saman smápeninga úr vösum sínum. Meðan íslenskir verkamenn sem þó eru á svo lágum launum miðað við innlend laun að helst engir íslendingar fást til starfa fyrir Impregilo geta þó keypt sér ullarnærföt, húfur, trefla og vönduð skjólföt. Rætt er um að launagreiðslur Impregilo séu táknræn fyrir það versta sem þekkist frá Ítalíu. Sé sú umræða á rökum reist fer vel á því að Þórarinn V. Þórarinsson skuli nú vera sá starfsmaður Impregilo sem fremstur fer í að verja ósómann. Í það þarf vitanlega vanan mann.
Þrælahald má það kalla þegar greitt er fyrir vinnu langt undir gildandi töxtum og starfsmenn sviptir nær öllum umsömdum réttindum. Ef slíkt er stundað af Impregilo, undirverktökum þeirra eða leiguliðum, þá er nauðsynlegt að leiða slíkt í ljós og stöðva það. Þrælahald í þessum skilningi, að hafa erlent starfsfólk á smánarlaunum, svipt öllum réttindum er talið umtalsvert hér um þessar mundir, einkum þó í byggingariðnaði .
Svört vinna útlendinga sem hér dveljast án vinnuréttinda er sögð veruleg og sama á við, engin réttindi, orlofs, veikinda, lífeyrissjóðs eða uppsagnarfrestur. Við steypuvinnu á mörgum vinnusvæðum er það oft svo að einungis útlendingar eru við að taka á móti steypunni og tala næsta litla eða enga íslensku. Salerni eða vinnuskúrar eru ekki fyrir hendi og má nefna sem dæmi að við heila götu þar sem allt var á fullu og fjöldi manns frá mörgum verktökum var við vinnu, reyndist við talningu einungis eitt salerni vera til staðar og mætti lengi nefna dæmi í þessa veru. Vissulega eru þetta sögusagnir en dæmi um nútíma þrælahald hafa samt verið upplýst hér síðari árin. Það hafa verið nefnd mörg önnur dæmi sem verkalýðsfélög hafa fengið ábendingar um en erfitt reynist að sanna enda hverfa þrælarnir eða láta sig hverfa þegar hitna tekur undir þrælahöldurum.
Skráning íslenskra skipa undir hentifánum er enn ein tegund nútíma þrælahalds sem skipafélög hér virðast stunda með mikilli ánægju. Enn ein tegund þessa er hin mikla aukning verktakavinnu við hin margvíslegustu störf. Ræstingar voru lengi unnar af starfsfólki Framsóknar og samningar um þau erfiðu störf allhagstæðir þegar unnið var í uppmælingu. Verulegur hluti ræstinga var greiddur þannig og var þá mörgum hagstætt fyrir það, að unnt var að taka að sér tiltekinn fermetrafjölda og ræsta hann utan vinnutíma en það var þá gjarnan vegna þarfa vinnustaðarins. Þetta fól í sér að hægt var að sinna þessu með öðru starfi, sem aukavinnu eða sem aðalatvinnu og taka þá ræstingasvæði eftir þörfum og getu. Húsmæður, einstæðir foreldrar eða hjón unnu að þessu og þá á þeim tíma sem hentaði. Tiltekin fyritæki og gróðapungar sáu sér leik á borði og buðu niður þessi verk og réðu til sín fólk á lágmarkslaunum og nú í miklum mæli nýbúa. Laun þeirra eru langt fyrir neðan það sem áður rann beint og milliliðalaust til félaga í Framsókn enda rennur rjóminn af afrakstri þessa fólks til þrælahaldaranna, sem í þessu tilfelli stunda það sem ég kýs að kalla nútíma þrælahald. Hugsanlega valda umræður um þetta inni á heimilum þeirra sem misst hafa ræstingastykkin í hendur ræstingafyritækja, með nýbúa í vinnu, einhverju um þann kala sem vart verður gagnvart nýbúum. Hvað sem því líður er fullkomnlega ljóst að nútíma þrælahald er grimmt stundað á Íslandi, bæði af innlendum sem erlendum atvinnurekendum. Félagsmálaráðuneytið og verkalýðsfélögin verða að reka af sér slyðruorðið í þessu og taka höndum saman og vinna hratt og með mikilli festu gegn hugsanlegu þrælahaldi Impregilo og annarra sem kunna að stunda það þótt í minna mæli sé.
Kristinn Snæland.