Ég var að reka augun í einn Hugakubbinn, þar sem yfirskriftin er; “þeir sem ætla
að styðja nýju ríkisstjórnina”.

Það sem er merkilegt við þennan kubb, er að hann gefur í rauninni ekkert val í
þátttöku. Þú bara annaðhvort ert með í kubbnum eða ekki. Ég man að þegar Hugi
byrjaði, fékk maður stig fyrir að smella á hvað svosem stóð þarna.

Mér er farið að þykja svolítið vænt um núverandi ástand þessa kubbs, vegna þess
að hann segir mér svo margt. Fyrir hvert nick sem þarna birtist, og í hvert skipti
sem ég er næstum því búinn að smella á en hætt við þegar ég átta mig á því hvað
ég er að kvitta fyrir, þá skil ég ennþá betur hvernig Ísland virkar.

Ég skal styðja Davíð Oddsson þegar hann lúti mínum málsstað, sem og Halldór
Ásgrímsson. Ég skal styðja hvalveiðar, og ég skal styðja sjálfstæði Íslendinga. Ég
skal styðja andstöðuna við ESB, og ég skal styðja við minn leiðtoga þegar þess er
þörf. Færum við í stríð, myndi ég án nokkurra spurninga styðja nýju ríkisstjórnina.
Ég ætla að styðja einstaklingsfrelsið og ég ætla að styðja skattalækkanir.

En ég ætla ekki að styðja hvernig farið var með Falun Gong meðlimina. Ég ætla
ekki að styðja Íraksstríðið. Ég ætla ekki að styðja kvótakerfið. Ég ætla ekki að
styðja hækkun á meira eða minna öllum gjöldum í menntakerfinu. Ég ætla ekki að
styðja áframhaldandi hnignun í þjónustu á heilbrigðissviði.

Ég ætla ekki að styðja nýju ríkisstjórnina.

Hvað er svona nýtt við hana? Æjæj, þarf Davíð a víkja vegna þess að Halldór hefur
allt í einu, þrátt fyrir að vera einungis forsvari mikils minnihlutahóps þjóðarinnar,
völd til þess að skera úr um það hver er hæfur til þess að stjórna þessu landi?
Aumingja Davið.

En hvað með aumingja landið? Hvað með aumingja lýðræðið, sem við köllum
okkur siðmenntuð fyrir?

HVAÐ ÞARF, til þess að Falun Gong tilfellið verði skráð sem mistök? HVAÐ ÞARF,
til þess að Ísland fari ekki í stríð við það sem Bandaríkjamenn vilja fara í stríð við?

Vopnað valdarán? Er það virkilega það sem við þurfum að gera, sem þjóð, bara til
þess að geta fengið að ráða þessu sjálf?

Við spurðum ykkur aldrei álits, stjórnmálamenn. Þið sögðuð ykkar álit, og við
sögðum til um það hverjir væru hæfir til þess að tala fyrir okkur. Við gerðum það,
í þeirri trú að það værum við sem réðum þessu landi. Að það værum við sem
réðum því hvernig Ísland liti út erlendis frá. Þið eruð ekki við, þið eruð bara fólk
eins og við, en við erum bara svo miklu, miklu fleiri… og það er jú meirihlutinn
sem skal ráða. Og við þurfum að ráða. Það er það sem kallast lýðræði. Og þið
virðið það ekki.

Ég býð skattalækkanir velkomnar. Ég býð Luo Gan velkominn í heimsókn til
Íslands til þess að hann geti nú loksins fucking lært að meta mannslíf. Ég kvitta
undir ýmislegt sem núverandi ríkisstjórn gerir, enda bara svo margt sem ein
ríkisstjórn getur klúðrað einsömul.

En ég kvitta ekki undir nýju ríkisstjórnina. Þessa líka splunkunýju, lýðræðislegu
ríkisstjórn. Ég styð hana í mörgu, en ég styð hana sjálfa ekki.

Ég skrifa ekki undir samninga, sem ég fæ ekki að lesa áður.