Sælt veri fólkið. Eftirfarandi bréf fór frá mér til Haralds Johannessens, ríkislögreglustjóra. Mig langaði að deila því með ykkur.

* SNIP *

Sæll, Haraldur.

Afsakaðu ef ég er að senda á rangan mann, endilega leiðbeindu mér hvert ég eigi að senda ef svo er.

Ég vil benda á gróft brot Stöðvar 2 gegn tóbaksvarnarlögum nokkrum. Ég man þegar þau lög voru sett og þekki því almenna umræða í kringum þau lög, en þau eru mjög skýr, og brot Stöðvar 2 er mjög skýrt og reyndar er ég hissa á því að ekkert hafi verið gert í því ennþá.

Stöð 2 fjallaði á dögunum um mann sem skrifaði um ákveðna tegund af sígarettum, og reyndar virtist maðurinn beinlínis vera að auglýsa sígaretturnar, en eins og fréttin fjallaði um, er það ólöglegt. Stöð 2 virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hinsvegar, að fréttin var sett þannig upp að hún braut nákvæmlega sömu lögin og hún fjallaði um. Það er auðvitað ákveðin kaldhæðni, en breytir ekki lögunum.

Þú finnur lögin hér: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2002006.html

Broti ð varðar 7. grein laga nr. 6 frá árinu 2002, en þar fer ekkert á milli mála hvað er átt við með auglýsingum; þar á meðal er “hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstaka vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra”. Þarna er sérstaklega tekið fram “hvers konar umfjöllun”.

Staðreyndirnar í málinu eru eftirfarandi.

Stöð 2 fjallaði um einstaka vörutegund.
Stöð 2 hafði ekki einu sinni fyrir því að vara við skaðsemi þeirrar tegundar sem hún var samkvæmt skilgreiningu að auglýsa, þó að í fréttinni hafi sést á pökkunum sem sýndir voru, að “Reykingar drepa”. Jafnvel þó að menn komist að þeirri niðurstöðu að sú viðvörun hafi verið á vegum Stöðvar 2, þá er það ennfremur mjög augljós staðreynd, að fréttin var “til annars en að vara sérstaklega við skaðmi þeirra”. Reyndar snerist hún alls ekki um skaðsemi tóbaks, og ég ítreka að ekki sér undirritaður að Stöð 2 hafi gert nokkurn skapaðan hlut til þess að skaðsemi tóbaks kæmi í ljós.

Ég get ekki séð að þetta sé útúrsnúningur eða misskilningur á lögunum, þetta er jafn mikið svart á hvítu og það getur orðið að mínu mati, en að vísu tel ég það vera lögfræðinganna og dómaranna að meta á endanum.

En til að lögfræðingarnir komist í að meta málið, þá þarf væntanlega ríkislögreglustjóri (þar sem brotið varðar allt landið, þar eð Stöð 2 sendir út um allt land), að meðhöndla rannsókn. Svo skilst mér á Dóms- og Kirkjumálaráðuneytinu allavega.

Þakka þér fyrir lesturinn og gangi þetta mál sem best.

Þó að þér beri að sjálfsögðu engin skylda til þess, máttu láta mig vita hvernig málið fer ef þú mátt vera að.

Með kveðju,
Helgi Hrafn Gunnarsson
helgi@binary.is