Það er greinilega gúrkutíð hjá fréttastofunum í dag. Í dag náði Visir.is að fjalla um það sem eina af þremur helstu greinum, að Berlinske Tider veit af hermálum Íslendinga. Ekki að neinn þar hafi haft hugmynd um það hvernig landið er varið fyrr en það á að hætta því.

Ég hef alla tíð haldið fast í mitt í þessari umræðu. Mér er nett sama um það að herinn sé að fara, nema vegna atvinnumála.

Fylgjendur hersins segja að bara vegna þess að maður sjái ekki ógn, þýði ekki að hún sé ekki til staðar. Nú er ég að tala um menn eins og Halldór Ásgrímsson, menn sem vita hvað mest um málið.

En þeir gleyma því, að menn sjá alveg ástæðu til þess að ráðast á landið. Ég skal nefna tvær strax.

1. Það er Bandarískt herlið hérna.
2. Við skrifuðum undir Íraksstríðið.

Fyrir utan ÞAÐ, dettur mér ekkert í hug.

En svo er annað. Við erum með 4 herþotur hérna sem mikið veður er gert vegna. Hvenær ætlum við að nota þessar þotur? Þegar það er hryðjuverkaárás? Þegar það koma 5 herþotur að ráðast á landið? Hver ætti að hafa fyrir því að ráðast með 5 herþotum á landið ef ekki margfalt fleirum? Og hvað ætla 4 herþotur að gera í því?

Ég held að þetta snúist nefnilega alls ekki um dómsdagspælingar sem menn hafa uppi eftir 11. September, heldur um miklu minni hluti.

Atvinnumál,
flugumferðaröryggi,
landhelgisg æslu.

Ekkert af þessu krefst sérstaks heimavarnarliðs, og hvað þá Bandaríkjamanna. Að ætla að það sé einhver raunveruleg ógn erlendis frá, er ekki bara veruleikafirring, heldur hreinlega stórmennskubrjálæði! Hver ætti að ráðast hingað inn? Það er eitt að vita ekki hver óvinurinn er, og annað að geta ekki ímyndað sér nokkurn mann á jarðríki (jafnvel eftir reynslu af George W. Bush og Osama Bin Laden), sem er nógu vitlaus til þess að ráðast inn í þetta land!

Og jafnvel ef við hundsum þetta, hvað ættum við að gera í því? Verja landið með 4 herþotum og 1.000 vopnuðum mönnum?

Látið ekki svona. Við verjum ekkert þetta land ef annað land ræðst á það. Í fyrsta lagi gætum við það aldrei sjálf (með 4 herþotum og tilheyrandi *fliss*), og í öðru lagi myndi engin þjóð, frekar en Bandaríkjamenn hafa hingað til, hafa nógu mikið herlið hérna til að verja það gegn erlendri árás.

Hvað er málið, hryðjuverk? Hvað á heimavarnarlið eða her að gera í því?

Ég bara verð að koma einhverju frá mér varðandi þetta. Umræðan er orðin að svo miklu gubbi að maður er hreinlega kominn með æluna upp í háls. Eina ástæðan fyrir því að einhver myndi ráðast á okkur, væri annaðhvort vegna herliðsins, eða stríðsyfirlýsingar okkar, SEM VIÐ VORUM Á MÓTI. Ég fullyrði þetta fyrir landsins hönd, því ég veit, eins og þið öll, að það var tilfellið.

Best vörn Íslendinga, er að sýna fram á að þeir þurfa ekki vörn.