Frumskýrsla Samkeppnisstofnunar um meint verðsamráð olíufélaga í landinu, tók að birtast í fjölmiðlum fyrir skömmu þar sem almenningur gat dregið þær ályktanir að sérstök fundahöld millum forsvarsmanna félaganna þriggja virtust hafa verið viðtekin venja af þeirra hálfu fyrir og eftir tilkomu nýrra samkeppnislaga.

Til hvers að setja samkeppnislög sem hið opinbera virtist ekki hafa tæki til þess að fylgja þeim hinum sömu lögum eftir fyrr en brot kynnu að vera fyrnd.

Framkvæmdavaldið og eftirlitsstofnanir á vegum ríkisins, eru tilgangslausar stofnanir ef eftirlit er ekki virkt.

Fjármálaeftirlit og Samkeppnisstofnun, Skattrannsóknastjóri og efnahagsbrotadeild lögreglu, samtals fjórar stofnanir sem starfa að einhverju leyti hver inn á annars verkssvið en virðast ekki vita hver á að gera hvað, hvenær eða ekki lögum samkvæmt miðað við
fréttaflutning.

Ég held að stórþarft verkefni væri að stjórnarþingmenn sitjandi ríkisstjórna sem og stjórnarandstöðuþingmenn er standa að lagasetningu hvers konar í landinu ár hvert, væri gert að kynna sér sérstaklega framkvæmd laga af hálfu stofnana ríkisins í reynd í stað þess að bæta klásúlum á klásúlum ofan í hin ýmsu lög ár hvert, svo ekki sé minnst á lagabálka sem virðast ekki virka betur en að brot kunni að fyrnast á rannsóknartíma.

Aðlögunartími að lögum á ekki að vera fyrir hendi sérstaklega gagnvart fyrirtækjum umfram Jón Jónsson, nema kveðið sá á um það sérstaklega í hinum sömu lögum.

Hvorki Jón né fyrirtækin hafa mér best vitanlega leyfi til þess að fara kring um gildandi lög í landinu og ef samkeppnislög eru sett þá hljóta fyrirtæki að lúta þeirri lagasetningu.

með góðri kveðju.

gmaria.