Ég er með nokkrar hugleiðingar um menntakerfi Íslands, og hvernig því mætti gjarnan breyta…..


Nr. 1:
Ég hef mikið verið að skoða erlenda háskóla upp á síðkastið, þá sérstaklega í Englandi, Skotlandi, Ástralíu og Chile. Mér finnst íslenska skólakerfið vera alveg hræðilega skipulagt og engan veginn í takt við tímann og heiminn. Ef maður segir útlendingi frá skólagöngu sinni taka þeir alveg andköf, því það er ekki eðlilegt hversu mörgum árum við eyðum í skóla ef við viljum fá almennilega menntun; vandmálið liggur í lok grunnskólans og framhaldsskólastiginu. Svo eru líka Íslendingar eftir á í t.d. lestri, stærðfræði og öðrum raungreinum, þess vegna fáum við ekki inngöngu inn í neinn erlendan háskóla nema að hafa klárað menntaskóla/fjölbraut, á meðan fólk í tilheyrandi landi byrjar í háskólanum þegar þau eru á bilinu 16 - 18 ára, mismunandi eftir löndum. Mér finnst þetta ekki réttlátt. Ég tók mér 2ja ára frí frá námi eftir grunnskóla, og því get ég ekki farið í framhaldsnám úti fyrr en ég er orðin 22 ára, í fyrsta lagi, en þá á náttúrulega eftir að eignast peninga til að geta haldið sér uppi úti og borga skólagjöld. Þannig að mín spurning er eftirfarandi:

“Er ekki hægt að reyna að breyta skólakerfinu hægt og rólega í átt að alþjóðlegum standard, t.d. með því að lengja skólaárið í grunnskóla, keyra meira inn meira námsefni á þeim aldri, og sameina kannski framhaldsskóla og háskóla? Eða ef til vill stytta framhaldsskóla niður í 2 ár, svo hann yrði meira eins og einhverskonar undirbúningskúrs fyrir háskólann? Hann á víst að vera það núna, en þetta er meira eins og framlenging á grunnskóla frekar en undirbúningur fyrir háskóla.”
———————–

Nr. 2:
Nú er ég kominn á þann aldur að margir vinir mínir og aðrir sem ég þekki eru loks komnir á háskólaaldur, og því miður, þá hafa all margir fallið þar, því þeir kunna ekki að “höndla” það að það sé frjáls mæting, því þeir hafa alla sína ævi verið skildaðir til mætingu, 4 ár í leikskóla, 10 ár í grunnskóla, og svo 4 ár í framhaldsskóla, alltaf skildaðir til að mæta, og svo fer þetta allt norður og niður hjá þeim þegar þetta er orðið frjáls. Ég, margir vinir mínir og líka kennararnir mínir höfum verið að tala um mætingarskilduna í framhaldsskólum, og þeim finnst hún öllum fáránleg. Það er treyst nemendunum til þess að vera í fjarnámi á þessum aldri, en samt eru þeir SKILDAÐIR til mætingar í öðrum tímum? Og ef þeir mæta ekki í 80% tímanna, þá eru þeir bara fallnir? Búið mál? Taka áfangann aftur, þegar maður var kannski búinn með 2/3 af önninni? Eða jafnvel 3/4? Er þetta sanngjarnt? Víst eru nokkrir óábyrgir nemendur inn á milli, sem myndu þá ofnota það að þeir þyrftu ekki að mæta, en þá myndur þeir sömu líka falla, og vonandi læra af reynslunni, en það er betra að gera þessa skyssu í framhaldsskóla en í háskóla, því þú hefur svo miklu meira að tapa í háskólanum, m.a. þessum fáránlega háu *innritunargjaldi* svokallaða, og svo líka það að þeir þurfa að flytjast að heiman, leigja íbúð og reyna að halda sér uppi, svo var það kannski fyrir ekki neitt? Ég er afbragðsnemandi sem er alltaf með 7 - 10 í öllum greinum, 7 í þeim sem mér finnst mér ganga hræðilega í, og ég hef oftast verið með MJÖG lága einkunn í mætingu, eins lága og manni leyfist til að hafa hana, en svo verður maður svo stressaður út af því að maður má ekki verða veikur, eða verða of seinn í tíma, svo ef maður VERÐUR kannski að skila einhverju verkefni og maður hefur engan veginn tíma utan skólans til að gera verkefnið, eða þá að maður hefur ÓVART gleymt að gera verkefnið daginn áður og á að skila því kl. 1 í dag? Þá þarf maður að sleppa tíma, því ein fjarvist gildir minna en að skila ekki 1 verkefni… en það er bara pressan.. hún er hræðileg.

“Fellið mætingaskylduna. Hún fellir nemendur.”
——————————–

Nr. 3:
Um skólagjöld, bókakaup og rútur. Þau eru ekki há á Íslandi, skólagjöldin í ríkisskólum Íslands, en hvers vegna ekki að hafa þetta bara ókeypis? Við gætum nú t.d. bara gefið skít í hugmynd Björns Bjarnasonar um stofnun íslensks hers og stutt íslenskt menntakerfi í staðinn? Við eigum svo langt í land, og við erum svo LANGT frá því að geta miðað okkur við hin Norðurlöndin. Í Danmörku er nú skólagangan ókeypis og ríkið borgar þér fyrir að stunda nám, meira að segja erlendum innflytjendum. Svo eru bækur þar líka ódýrari en hérna, bókaskattar hérna eru líka fáránlegir, og sömuleiðis álagningin á þær. Svo kom vinur minn upp með alveg frábæra hugmynd sem mig langar að segja þér frá. Eins og þú veist, þá er 70 - 85% af skólakostnaði fólks bókakaupin. Ég eyði að meðaltali 17.000kr á önn í bókakaup, og oft er það mikið mikið meira, sérstaklega þegar maður þarf að taka félagsfræði, landafræði, sögu eða líffræði, þá getur talan mjög auðveldlega hækkað upp í 30.000 - 40.000 kr á önn, sem er, að mér finnst, glæpsamlega há upphæð fyrir nema að borga. Ég man að í grunnskóla var manni bara lánað bækurnar ókeypis, en væri nú ekki sniðugt að gera það samt í framhalds- og háskóla, að lána út bækunar gegn ákveðnu verði á önn, t.d. 4.000 eða 5.000 kr p/önn?? Það væri nú meiri lúxusinn. Engar áhyggjur. Þá þarf ég ekki að lifa á brauði, pasta og núðlusúpu, eða vinna eins og fjandinn væri á hælunum á mér yfir allt sumarið. Núna er ég t.d. að vinna við þrif á kvöldin, sem er bara 1,5 klst á virkum dögum, og fæ út úr því 40.000kr, sem er ekki slæmt, en þó: Þegar maður er farinn að búa þá verður þetta mun erfiðara. Meira að segja þó að nemandinn búi hjá foreldrum sínum, virðist hann aldrei eiga peninga, þó hann vinni hlutastarf með skólanum. Allavegana eiga vinir mínir oftast ekki peninga til að skreppa til Reykjavíkur í bíó, eða skreppa á djammið. Lífið er bara: Vakna - skóli - vinna - læra - sofa.
Svo er ég mjög þakklát fyrir það að LÍN sé farið að endurgreiða okkur hérna í FSu rútugjaldið og skólagjaldið, en hvers vegna þarf það að vera í lok annar? Af hverju getum við ekki bara fengið þetta ókeypis? Mennt er máttur, og menntun fólks skilar sér til Ríkisins fyrr eða síðar, þannig að þetta er mjög góð fjárfesting fyrir ríkið. Fólk sem kemur af fátækari stéttinni, konur með börn og allir aðrir, ættu að eiga jafnan kost á menntun, finnst þér ekki?

Eða þetta er það sem mér finnst…