Í dag er dagurinn þar sem öll sjónarmið, allir flokkar og allar stefnur sameinast um eitt, og það er lýðveldið Ísland.

Í dag höldum við upp á það að við erum ekki lengur undir oki Dana, Norðmanna eða nokkurs annars lands. Við erum Íslendingar, og við byggjum Ísland, og ráðum okkar málum sjálf.

Og hvers vegna vildum við þetta til að byrja með? Við vildum geta ráðið okkar högum sjálf, án tilliti til þess hvað fólkinu í Danmörku fannst um okkar mál. Við trúðum því þá eins og nú, að við vitum betur heldur en fjarlægt yfirvald hvað er landi okkar og þjóð fyrir bestu. Það er okkar réttur að ráða okkur sjálf.

Svo að ég spyr:

Hvað var málið með Falun Gong?
Hvað var málið með Íraksstríðið?
Hvað var málið með ríkisábyrgð ÍE?

Hversu mikið þarf að mótmæla til þess að það sé hlustað? Er það sjálfstæð og lýðræðisleg þjóð sem neyðist til þess að kjósa flokka sína eftir algerum grunnforsendum þeirra, algerlega burtséð frá þeim málefnum sem þeir flokkar hafa staðið fyrir í gegnum árin?

Hversu mikið eigum við að fyrirgefa? Á fjögurra ára fresti höfum við einn kross til þess að hafa áhrif á það hvernig þessu landi er stjórnað. Hvernig gæti fyrirkomulagið mögulega verið ónákvæmara og samhengislausara?

Hvar er flokkurinn sem aðhlynnist hægristefnu, fyrir utan þau málefni sem einstaka Sjálfstæðismenn eru á móti? Hvar er vinstriflokkurinn sem vill ekki banna allt og alla? Hvar er miðflokkurinn sem hafnar öfgakenndum hægriöflum? Hvar er miðflokkurinn sem hafnar öfgakenndum vinstriöflum?

Hvar er flokkurinn sem vildi stuðning við gagnagrunn ÍE, vildi stuðning við ríkisábyrgð ÍE, en var á móti stríðinu? Hvar er flokkurinn sem vildi hið þveröfuga? Hverslags magn flokka þurfum við til þess að geta stjórnað þessum málefnum?

Hvar er nákvæmnin í því hvernig við kjósum? Hversu miklu getum við mögulega ráðið?

Við höfum tvær körfur.

Ein þeirra er með 1 fiskbitum og 9 appelsínum.
Hin er með 9 fiskbitum og 1 appelsínu.

Segjum svo að ég megi ráða því sem ég borða… geti tekið af þessum körfum það sem mér sýnist. Hví get ég ekki fengið mér 5 fiskbita og 5 appelsínur? Hvers vegna þarf ég að taka annan hvorn af algerlega ólíkum pökkum sem hvorugir fullnægja mínum þörfum?

Hvernig eigum við að hafa áhrif á málefni þessa land? Hvað þarf til? Eftir fjölmörg mjög umdeild málefni sem þjóðin hefur nánast í heild sinni reynt að sporna við… stendur ríkisstjórnin nánast nákvæmlega eins og hún var. Alþingi breytist lítið, og eðlilega, vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft verðum við að kjósa samkvæmt grunnstefnum og hugmyndafræði… ekki samkvæmt málefnum. Þetta þýðir það að málefnin verða úti í kuldanum, og þeim ráðum við ekki.

Hvar er lýðræðið okkar góða? Komið á elliheimili?

Ég hvet menn til umræðu og hugsunar varðandi lýðræðið okkar, raunverulegt gildi þess. Þ.e.a.s. þetta flokkafyrirkomulag. Þó ég sé ekki að gefa í skyn að það sé með öllu ónýtt, þá er margt sem mætti vera mun betra… og þarf í raun að verða það.

Þó skulum við aldrei gleyma því sem við höfum nú. Þetta gæti jú verið verra… eins og það var… þ.e.a.s. þegar Danir réðu okkur.

Til hamingju með daginn, allir landsmenn, allir flokkar og fulltrúar þeirra allra.