Ég hef verið að velta fyrir mér skilaboðum sem útvegsmenn eru að koma með í fréttum og fjölmiðlum þar sem þeir virðast krefjast þess að gengið verði fellt, ég verð að segja að mér finnst þetta ótrúleg frekja og yfirgangur, en á sama tíma finnst mér þetta aðdáunarvert að þessir menn skuli koma svona út úr skápnum og sýna það opinberlega hvað þeir virðast geta þrýst á stjórnmálamenn og banka til að stjórna gengi krónunnar. Og maður getur aðeins giskað á hvað þessir menn telja sig getað stjórnað fleiru í þessu landi.

Nú er ekkert til lengur sem heitir ríkisbanki og búið að einkavæða bankakerfið svo þessir menn geta ekki hringt niður á þing eða í aðra háa herra og fengið krónuna skrúfaða niður með þeim leiðum og sér maður greinlegan pirring og svekkelsi yfir í viðtölum við þessa menn.

Ef maður skoðar aðrar þjóðir í kringum sig þá sér maður ekki svona lagað að gengið sé fellt með handafli eða öðrum stýriaðgerðum, frekar virðast þessar þjóðir vilja hafa sinn gjaldmiðill sem verðmætastan. Svo líka það að ef útvegsfyrirtæki fá sínu fram þá þýðir það minna til handa hinum venjulega manni í landinu. Nú var það í fréttum að gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja hefur aukist um 60% það sem er af árinu ef miðað er við árið í fyrra, hvað eru útvegsmenn að biðja um að gjaldþrot hjá fólki aukist um 120% .

Ég er líka búin að fá staðfestingu á því sem ég hafði á tilfinningunni þegar ég var yngri, þá svona um 1984 ? 85 og þó ég hafi ekki verið gamall á þeim árum þá hafði ég það á tilfinningunni að kvótakóngarnir gætu boðið einhverjum ráðherrum og þingmönnum á fyllirí og þannig fengið gengi krónunnar fellt.

Ég get ekki spáð í hvað myndi gerast ef íslenska krónan yrði jafn verðmæt og bandaríkjadollar, og einnig velt fyrir mér hvernig bandaríkjadollar fer að því að halda velli og halda uppi því veldi sem bandaríkin eru í dag.