Ég ætla að láta það í friði að segja að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé vinsæl eða óvinsæl á meðal kjósenda. Við ættum öll að geta sæst á það að hún er a.m.k. mjög umdeild (eins og Davíð Oddsson). Margir dýrka hana, margir hata hana.

Það sem ég ætla hinsvegar EKKI að láta í friði, er að benda á galla lýðræðisins, sem er vanþekking almúgans. Ég er alger lýðræðissinni, og liggur við að ég kallist öfgamaður á því sviði, en eftir að hafa velt því fyrir mér í árabil um það hvort að núverandi kosningakerfi okkar standist lýðræðislegar hugsjónir, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert að því, heldur eingöngu það að fólk virðist merkilega sjaldan kunna að kjósa. Lýðræðisins vegna.

Og eðlilega. Okkur er ekki kennt þetta markvisst, og þetta er ekki meðfædd þekking. Maður þarf að heyra það nánast við tilviljun, og misjafnt er hvort þær upplýsingar séu marktækar, sbr. því að ég fékk margar útskýringar á möguleikum mínum til að strika út fyrir þessar kosningar. Einnig lagði ég í efa að það mætti endurraða.

Spurning er samt hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi gert Samfylkingunni gott eða illt. Ef við lítum á úrslit kosninganna tel ég ekki hægt að segja annað en að hún hafi gert flokknum gott, en látum það liggja milli hluta í bili. Lýðræðisins vegna.

Málið er nefnilega að þátttaka hennar í Samfylkingunni, ætti í kenningunni ekki að hafa nein áhrif á kosninguna, einfaldlega vegna þess að það er hægt að strika hana út, og núna er meira að segja hægt að endurraða listanum. Mér skilst meira að segja að maður megi strika út eins marga í flokknum sem maður kýs og manni sýnist, þó að seðillinn sé auðvitað auður ef maður kýs flokk og strikar alla út, enda hefði það engin áhrif á kosninguna ef hann yrði tekinn gildur.

Ef menn eru hlynntir málefnum Sjálfstæðismanna, en hata núverandi stjórn út af lífinu, geta þeir kosið flokkinn en strikað út þá sem nú eru ríkjandi í flokknum. Og öfugt!

Ég fór að pæla í þessu fyrir þessar kosningar þegar ég komst að því að vinnufélagi minn, sem ég hefði hengt mig upp á að væri Sjálfstæðis- eða Framsóknarmaður, reyndist kjósa Samfylkingua (og kom mér enn meira á óvart með því að setja upp X-S barmmerki við umræðuna)… en þó ítrekaði hann að hann ætlaði að krassa mjög hressilega yfir Ingibjörgu Sólrúnu, þar sem hún var í hans kjördæmi.

Þarna sé ég mér nefnilega fært að kjósa alla flokka nema Vinstri Græna, samkvæmt minni sannfæringu! Taki ég ekki tillit til þessa möguleika míns, þá get ég ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn og ekki Framsókn, þó að ég sé hlynntur þeirra grunnskoðunum samkvæmt stefnulýsingu, en hjartanlega og algerlega ósáttur við frammistöðu þeirra í of mörgum málum.

Þetta er eitthvað sem ég vildi bara vekja athygli á. Atkvæði er heilt atkvæði, en samt bara atkvæði, svo það að selja sál sína með því að kjósa stjórnarflokkanna er í rauninni afsakanlegt út frá sjónarmiðum stjórnarandstæðinga með þetta í huga. Og öfugt!

Þetta styrkir mína tiltölulega veiku skoðun að maður eigi að kjósa málefni en ekki fólk. Þó að einhver sé þroskaheftur fæðingarhálfviti í flokk sem styður góð málefni, er ekki forsenda fyrir því að útiloka það að maður kasti í þann flokk atkvæði sínu.

Þó sé ég nákvæmlega ekkert eftir atkvæði mínu, sem fór án útstrikanna og endurröðunar til Frjálslyndra og er flokkur sem ég vil sérstaklega vekja athygli á að er til… lýðræðisins vegna.