Hverjum eigum við að gefa okkar atvkæði á morgun? Á morgun er kosningardagur. Margir ganga inn í kjörklefann á morgun ákveðnum skrefum, löngu búnir að ákveða hvað skuli kjósa og merka fast og örugglega við viðeigandi bókstaf á kjörseðlinum. En hins vegar eru einnig margir sem eru ekki vissir í sinni sök hverjum skuli veita umboð sitt til þess að stjórna landinu næstu fjögur árin, ætla kannski að skila auðum seðli eða ógildum og síðan eru þeir sem ætla ekki að nýta sér rétt sinn til þess að hafa áhrif á það hver skuli stjórna þjóðfélaginu okkar næstu árin. Í þessari grein ætla ég að benda þessu fólki, þ.e. því fólki sem tilheyrir seinni flokknum af hverju ég styð Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á morgun og af hverju það ætti að veita Sjálfstæðisflokknum sitt umboð á morgun til þess að stýra þjóðarskútunni á enn fengsælli mið en við höfum séð hingað til.

Fyrst má nefna skattamálin. Á síðasta kjörtímabili var tekjuskattshlutfallið lækkað um 4%, hátekjuskattur var lækkaður úr 7% niður í 5%, persónuafsláttur er nú fullkomlega millifæranlegur á milli hjóna, virðisaukaskattur á matvælum var lækkaður úr 24,5% í 14%, fasteignagjöld á landsbyggðini hafa verið lækkuð og svo mætti lengi telja. En þótt vel hafi verið gert vita Sjálfstæðismenn ósköp vel að alltaf má gera betur og því ætla þeir að:
Lækka tekjuskatt um önnur 4% úr 25,75% í 21,75%
Lækka neðra þrep virðisaukaskatts úr 14% í 7%
Afnema eignaskatt
Lækka erfðafjárskatt í 5% og gera fyrstu milljónirnar skattfrjálsar
Auka enn frekar skattfrelsi einstaklinga vegna viðbótarframlaga í lífeyrissjóði

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins. Fjölskyldan er mikilvægur félagsmótunaraðili og hefur gríðarleg áhrif á það hvernig rætist úr okkur sem einstaklingum. Þessu gerir Sjálfstæðisflokkurinn sér fullkomlega grein fyrir og hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að treysta hag fjölskyldna í landinu. Ný lög um fæðingarorlof skipta mestu í því sem gert hefur verið og gera þau báðum foreldrum jöfn tækifæri til þess að sinna nýfæddu barni sínu en það er ekki nóg heldur hafa lögin einnig tryggt aukið jafnrætti kynjana á vinnumarkaði. Lægri skattar, aukin kaupmáttur og hátt atvinnustig hafa einnig tryggt gott umhverfi fjölskyldna í landinu. En eins og áður segir gera Sjálfstæðismenn sér fullkomlega grein fyrir að enn má gera betur og ætla því m.a. að gera eftirfarandi á næsta kjörtímabili
Hækka barnabætu um 2.000 milljónir kr.
Fjölga enn meira tækifærum allra til fyrsta flokks menntunar með sérstöku átaki til að efla starfs- og verknám
Tryggja aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og eyða biðlistum í heilbrigðiskerfinu
Leggja áherslu á sveigjanlegri vinnutíma sem tekur mið af þörfum fjölskyldu- og barnafólks

Aðrar ástæður mætti týna til eins og t.d. það að Sjálstæðisflokkurinn ætlar…

…að stuðla að og efla þróun eðlilegs leigumarkaðar
…að hvetja til frekari uppbyggingar heimahjúkrunar og heimaþjónustu til að gera öldruðum kleift að búa lengur heima hjá sér, afnám eignaskatts stuðlar einnig að sama markmiði, þ.e. gera öldruðum kleift að búa áfram í eigin húsnæði
…að treysta stuðning við fjölskyldur fatlaðra og geðsjúkra
…að gera táknmál að tungumáli heyrnarlausra
…að afnema einokun á áfengissölu
…að fjölga stöðugildum innan lögreglunar og auka sýnilega löggæslu til þess að stuðla að meira öryggi borgaranna
..ekki að ganga í Evrópusambandið
… að stuðla að samvinnu lögreglu, skólayfirvalda, íþróttafélaga og annarra við mótun heildstæðrar forvarnastefnu gegn fíkniefnum

Þetta eru aðeins nokkrar ástæður þess að ég styð Sjálfstæðisflokkinn og tel að þú ættir einnig að gera það.