Góðir landsmenn!

Það eru kosningar framundan og margir vilja líta á það sem tækifæri til breytinga.

Fólk sem fylgst hefur grant með þjóðmálunum veit að ekki geta allir Íslensku ríkisborgararnir unað sáttir við sín kjör og notið þess að lifa, þrátt fyrir nægjusemi á flestum sviðum, tiltölulega áhyggjulausu og tiltölulega hamingjusömu lífi.

Einhvernvegin virðist núverandi ríkisstjórn eiga erfitt með að setja sig í spor lítilmagnans og meðalmannsins í þjóðfélaginu. Þeir eiga sína ríku vini sem þeir þurfa að hugsa sérstaklega vel um.
Þeir passa sig samt að koma með falleg gylliboð fyrir kosningar og setja nógu margar auglýsingar í fjölmiðla til þess að þeir sem ekki vita um hvað þessar kosningar snúast, passi sig nú að velja rétt.
Ef rétt má teljast, því þessar auglýsingar er nánast málefnalaus tilfinningaáróður þar sem fólk fær að bera fyrir sig fallegt og hamingjusamt fólk, sem á vitaskuld gleði sína að þakka núverandi leiðtogum þjóðarinnar.
Þetta skilar sér síðan beint í auknu fylgi til núverandi ríkisstjórnar enda er ekki langt síðan þessi auglýsingaáróður hófst af fullum krafti og má sjá tölulegar breytingar síðan þá.

Já, því miður er það svo að margir þjóðfélagsþegnar þessa annars undurfagra lands, skilja ekki um hvað málin snúast og kjósa því það sem heillar augað í auglýsingum fjölmiðlana.
Eins eru það margir sem kjósa af gamalli “ættarhefð” þann flokk sem pabbi og mamma kusu fyrir 10-20 árum síðan!

Elsku, elsku Íslendingar! Ætlið þið að vera eins tilfinningalausir róbótar sem vita ekkert meir en blessuð forritin í þeim leyfa! Viljið þið ekki vera svo góð og kynna ykkur málefni flokkana fyrir þessar kosningar þannig að nú loksins fáum við að sjá langþráða breytingu.
Og þið hin sem hafið það nokkuð gott og jafnvel betur. Gætuð þið kannski hugleitt það, hvort ekki sér vert að kjósa með hagsmuni þeirra í huga sem ekki njóta sömu gæða í lífinu og þið! Já þetta fólk er til, ekki ætlið þið að horfa fram hjá því í þessum kosningum samviskulaust! Hagur þeirra er í okkar höndum.

Því vissulega boðar núverandi ríkisstjórn flata 4% lækkun skatta á alla ríka sem fátæka. En það þýðir að manneskja með 100.000,- á mán. Fær 104.000 meira á meðan maðurinn með 1.000.000,- á mán. Fær 40.000,- kr. Meira. Hverjir græða þá mest á þessu? Það sjá allir að þeir sem mest á þurfa, græða þarna minnst og á það einnig við um tekjuskattinn.
Hvernig höfum við líka efni á þessu? Er þjóðin algjörlega skuldlaus?
Vissulega hefur náðst að greiða eitthvað af skuldum ríkisins niður með því að selja eignir ríkisins. En er sú leið ekki komin í þrot? Nú þegar búið er að selja flestar tekjulindir ríkisins þarf ríkið að finna aðrar leiðir til þess að ná inn þessum peningum sem áður skiluðu sér inn til þjóðarinnar.
Ekki viljum við bjóða heim nýju þenslutímabil í sögu þessarar ríkisstjórnar. Síðasta slapp naumlega fyrir horn og var það ekki ríkisstjórninni að þakka að sá Golíat var sigraður, nota bene!

Síðan hefur það sýnt sig að allar hagsbætur sem ríkisstjórnin hefur getað boðið öryrkjum og öðrum illalaunuðum þjóðfélagsþegnum, tekst þeim að skera niður annarstaðar frá af einmitt þessum sama hópi!

Hvar skyldu þeir þá höggva þessi 4% af ríkiskökunni í ár? Kannski með minni félagsþjónstu? Hærri lyfjakostnaði? Hærri gjöldum fyrir sjúkrahúsvist? Ég er strax farin að kvíða því, því ég veit af fenginni reynslu að það mun gerast.

Eru það virkilega ekki fleiri sem þora að gefa öðrum stjórnmálaflokkum tækifæri til þess að vinna það verk sem núverandi ríkisstjórn virðist ekki ráða fyllilega við? Það er ekki eins og maður hafi ekki úr nógu að velja.


Vaknið nú elsku þjóð! Þetta getur ekki gengið svona lengur. Nýtum atkvæðin okkar vel, vöndum valið og förum alls meðvituð í kjörklefana um það, hverja við teljum best til þess fallna að stjórna landi voru og þjóð!

Munið það jafnframt að með því að kjósa Framsóknarflokkinn eruð þið um leið að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og öfugt, því þessir tveir flokkar hafa nú unnið saman síðustu 2 kjörtímabil og munu örugglega ekki slíta vinskapnum svo auðveldlega.

Ef þið eruð í vafa er betra, annað hvort að skima yfir farinn veg og kanna hvort manni finnist núverandi ríkisstjórn hafa staðið sig fyllilega vel á síðasta kjörtímabili og veita þá blint öðrum tækifæri ef manni finnst svo ekki vera, eða hreinlega að skila auðu!


Óska ég ykkur gleðilegs kosningadags og farsældar til allra landsmanna.