Fyrir fjórum árum var ég í miklum vandræðum með hvaða bókstaf ég ætti að setja minn fyrsta kross við í alþingiskosningum. Ég vissi reyndar alveg hvaða flokkur samrýmdist mínum skoðunum sem best í þeim málum sem mestu skipta en ég fór að spá í hvar atkvæðið mitt mundi hafa mest áhrif. Flokknum sem ég átti sem besta samleið með, VG, gekk nefnilega ekki allt of vel í könnunum og ég taldi að kannski væri ég bara að fleygja atkvæði með því að kjósa hann og því kaus ég Össur í staðinn.
Sem betur fer gekk VG mun betur en kannanir spáðu því ekki hefði ég viljað að það hefði bara vantað eitt atkvæði að þeir næðu manni inn í mínu kjördæmi.
Það er nefnilega oft þannig að hjá litlum flokkum skiptir hvert atkæði máli.

Nú, fjórum árum seinna, er ég reynslunni ríkari. Þess vegna kann ég illa við það þegar Samfylgingin gefur í skyn að atkvæði greitt öðrum stjórnarandstöðuflokkum hjálpi ekki við að fella stjórnina.

Ég ætla ekki að segja ykkur að þið eigið öll að kjósa Vinstri Græna. Enda hafa þeir sína galla eins og aðrir og því fer fjarri að ég sé sammála þeim í einu og öllu.

En látið ekki hræða ykkur frá því að kjósa þann flokk sem hefur þá stefnu sem samræmist þínum hugmyndum hvað best í þeim málum sem skipta þig hvað mestu máli.

Þannig hefur þitt atkvæði mest áhrif.

Kveðja,
Ingólfur Harri