Þessa síðustu daga kosningarbaráttunnar hafa stjórnarflokkarnir lagt höfuðáherslu á að þeim einum sé treystandi fyrir stjórn landsins og að þeir sem kjósi einhverja aðra séu nánast föðurlandssvikarar, eða það má helst skilja á hamförunum sem eiga að ganga yfir okkur ef núverandi stjórn fellur.

Þarna treysta stjórnarflokkarnir á gullfiskaminni kjósenda. Sjálfur treysti ég því að þeir hafi misreiknað minni okkar.

Það getur hins vegar verið að við þurfum aðeins rifja upp með sjálfum okkur síðustu 8 ár eða jafnvel bara síðustu fjögur.

Hversu oft hefur okkur blöskrað yfirgangur þessarar stjórnar?

Hversu mikið ofbauð okkur þegar brugðist var við dómum um ólögmæti aðgerða stjórnarinnar með því að gera ranglætið löglegt með nýjum lögum? Hvort sem það varðaði þá sem minnst mega sín eða aðal atvinnuveg þjóðarinnar.

Hversu mikið skömmuðumst við okkur fyrir að vera Íslendingar þegar stjórnin dreifði svörtum lista þar sem fólki var mismunað á grundvelli trúarbragða og kynþáttar?

Hvernig leið okkur þegar rískisstjórnin setti okkur á stuðningslista stríðs sem var einungis háð með hagsmuni bandarískra ráðamanna að leiðarljósi?

Hvað fannst okkur um spillingu í íslensku þjóðfélagi þegar Landsímamálið kom upp? Eða þegar sá var rekinn sem vakti athygli eigenda Landsímans (okkar) á málinu?


Vissulega eru þetta sterk orð hjá mér en eru þið búin að gleyma hversu sterkar tilfinningar okkar voru.

Eða hefur þeim kannski tekist að gera okkur ónæm með því að koma með nýtt hneyksli í hverjum mánuði?

Sýnum þeim á laugardaginn að við vorum að fylgjast með þeim og munum eftir gjörðum þeirra.

Kveðja,
Ingólfur Harri