Nú er sú staða komin upp að mögulegt er að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki í ríkisstjórn næsta kjörtímabil og verði í stjórnarandstöðu. Þetta hefur valdið því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gripið til útúrsnúninga og hræðsluáróðurs. Kosningabárátta þeir snýst um að snúa út úr tölum og staðreyndum, og að ógleymdri þeirri staðreynd að forsætisráðherraefni höfuðandstæðingsins hafi einhverntíman skipt um skoðun. Sem dæmi um fullyrðingar Sjálfstæðisflokksins má nefna þær staðhæfingar að allt gott sem gerðist á kjörtímabilinu sé þeim sjálfum að þakka, skattbyrði hafi minnkað á lægstu laun og að engin vinstri stjórn hafi setið heilt kjörtímabil. (Og kannski að veðrið hafi verið gott?). Þær fullyrðingar eru í besta falli hæpnar.
Staðreyndin er sú að allar ríkisstjórnir á Íslandi hafa verið undir forsæti Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokks. Eina ríkistjórnin sem mögulega gæti kallast vinstri stjórn, var sú sem sat 1956-1958, þó undir forsæti Framsóknarflokks. Sjálfstæðismenn segja að það sé vinstri stjórn sem stjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki hlut að, sem er argasta vitleysa að mínu mati.
Komum við þá að þeirri staðhæfingu að engin vinstri stjórn hafi setið heilt kjörtímabil, varla er hægt að segja að það sé einkenni sem einungis er á vinstri stjórnum, hægra megin er þar af nógu að taka, má þar nefna ríkistjórnina sem sat 1987-1988 undir stjórn Þorsteins Pálssonar og ríkisstjórnina 1978-1980 undir forsæti Benedikts Gröndal. Til gamans má geta þess að það eru ekki margar ríkistjórnir á Íslandi sem setið hafa heilt kjörtímabil, en það eru einungis: Viðreisnarstjórnin, stjórnin 1974-1978, Viðeyjarstjórnin og sú ríkisstjórn sem nú situr.
Auk þess er hjákátlegt að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn þakka sér fyrir að hafa ráðið niðurlögum verðbólgudraugsins, ég er nokkuð viss um að það má þakka Þjóðarsáttinni gerð var milli VSÍ og ASÍ árið 1990, með lítilli þáttöku stjórnvalda. (Verðbólga lækkaði úr 21% niður í 3.7% milli 1988 og 1992, ríkistjórn Davíðs Oddsonar tók við 1991).
Hinn mikli hagvöxtur sem verið hefur undanfarin ár, er nú varla verk Davíðs og félaga heldur, því góðæri og uppgangur hefur verið í öllum hinum kapítalíska heimi undanfarin ár. Óeðlilegt væri ef Ísland hefði ekki notið þess líka, og kemur það Sjálfstæðisflokknum og hagstjórn hans lítið við. Reyndar er samkvæmt mörgum hagfræðingum kreppa í aðsigi í heiminum í dag, Ísland mun líklega ekki fara varhluta af henni heldur (og hlakka ég til sjá Sjálfstæðisflokkinn kenna næstu ríkistjórn um hana).
Í skattamálum hefur Sjálfstæðisflokkurinn lofað skattalækkunum upp á 20 milljarða, sem mun að mestu gagnast hátekjufólki, samkvæmt þeim mun forstjóri Kaupþings geta keypt sér heila íbúð fyrir sína skattalækkun, en venjulegur launamaður í mesta lagi gamla bíldruslu. Hvernig ætlar flokkurinn að viðhalda velferðarkerfinu? Ekki er hægt að gera allt fyrir alla.
Í skattamálum halda Sjálfstæðismenn því líka fram, eins og áður sagði að skattbyrði hafi minnkað og kaupmáttur hafi aukist. Þetta eru ekkert nema útúrsnúningar á staðreyndum málsins, eins og kom fram í auglýsingu Félags Eldri Borgara í Fréttablaðinum fyrir nokkrum dögum (mun ég taka dæmi úr henni, lesendur geta kynnt sér útreikninga á heimasíðu félagsins, feb.is), þar kom fram að skattbyrði hefur í raun aukist, þó að skattar hafi lækkað, vegna þess að tekjuaukning þeirra hélst ekki í hendur við almenna launaþróun, sem dæmi má nefna mann sem hefur nú 100.000 í tekjur og að tekjur hans hafi hækkað eins og verðlag frá árinu 1990. Hann greiddi þá 6.2% tekna sinna í skatt en greiðir nú 10.2%. Þetta hljómar ekki eins og skattbyrði hafi minnkað. Hið sama gildir um kaupmáttinn, kaupmáttur hefur að vísu aukist almennt, en ekki hjá bótaþegum. Þó svo að bætur hafi hækkað hefur það allt verið tekið til baka með aukinni skattbyrði, hækkun lyfjakostnaðar, sjúkrakostnaðar og vaxtakostnaðar.
Þessi örþrifaráð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gripið til, lyga og áróðurs af verstu gerð, sýnir einfaldlega þá hræðslu sem ríkir innan flokksins að hann gæti misst völdin. Vill því ég hvetja alla til að mæta á kjörstað á laugardaginn og stuðla að því að þessi flokkur spillingar og sérhagsmuna verði sendur út í kuldann. Hvert atkvæði skiptir máli. Nú er kominn tími á vinstra vor, eftir langan og harðan hægri vetur!